Sport

Ólympíu­meistarinn hallar sér að Jesú og fjöl­skyldunni í kjöl­far hand­töku

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þarf að mæta fyrir dómara á næstu dögum eftir að lenda í klóm lögreglunnar.
Þarf að mæta fyrir dómara á næstu dögum eftir að lenda í klóm lögreglunnar. Kadir Caliskan/Getty Images

Glímukappinn Kyle Snyder var handtekinn á dögunum fyrir að reyna að versla vændi í Ohio-ríki í Bandaríkjunum. Hann hafði hins vegar ekki borgað vændiskonu heldur lögreglukonu sem þóttist vera vændiskonu.

Snyder hefur nú tjáð sig um málið á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, án þess þó að virkilega ræða handtökuna að neinu viti. Vitnaði glímukappinn meðal annars í biblíuna og sagðist ætla að halla sér að trúnni og fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.

„Ég vil þakka öllum sem hafa sýnt mér hlýhug og vinsemd. Einbeiting mín er á sambandi mínu við Jesú Krist og fjölskyldu mína. Þetta er ekki endastöðin á vegferð minni,“ skrifaði Ólympíumeistarinn áður en hann vitnaði í kafla úr biblíuna með orðunum „1 Peter 4:17-18.“

Snyder var handtekinn eftir að lögreglan í Ohio-ríki réðst í aðgerðir til að minnka vændi. Hann var handtekinn inn á hótelherbergi, sleppt samdægurs en þarf að koma fyrir dómara 19. maí næstkomandi. Lögreglan hefur gefið út að alls hafi 15 karlmenn verið handteknir í aðgerðinni.

Hinn 29 ára gamli Snyder er af mörgum talinn einn besti glímukappi sinnar kynslóðar. Hann vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 þegar hann var enn í háskóla. Hann vann silfurverðlaun á leikunum í Tókýó og hefur unnið þrjá heimsmeistaratitla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×