Fótbolti

Ís­lenskt mark, sjálfs­mark og rautt spjald

Sindri Sverrisson skrifar
Eggert Aron Guðmundsson kom til Brann í febrúar og gerði samning til ársins 2028.
Eggert Aron Guðmundsson kom til Brann í febrúar og gerði samning til ársins 2028. brann.no

Íslendingar voru áberandi í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Eggert Aron Guðmundsson skoraði fyrir Brann í afar svekkjandi jafntefli við Sarpsborg, Logi Tómasson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og Stefán Ingi Sigurðarson fékk að líta rauða spjaldið.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar misstu af stigum í toppbaráttu deildarinnar þegar þeir gerðu 2-2 jafntefli við Sarpsborg, þar sem jöfnunarmark gestanna kom á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Eggert hafði komið Brann í 1-0 strax á fjórðu mínútu leiksins og Brann komst aftur yfir, 2-1, á 59. mínútu. Skömmu síðar kom Sveinn Aron Guðjohnsen inn á hjá Sarpsborg sem freistaði þess að ná inn jöfnunarmarki og tókst það á síðustu stundu.

Brann er því í 3. sæti með 17 stig en leik til góða á topplið Viking sem er með 20 stig, eftir 3-1 sigur á Sandefjord sem missti Stefán Inga af velli með rautt spjald í lokin. Vítaspyrna var þá einnig dæmd sem Viking skoraði úr og innsiglaði sigurinn. Hilmir Rafn Mikaelsson var á varamannabekknum hjá Viking.

Ísak Snær Þorvaldsson var einnig á bekknum hjá Rosenborg sem vann 1-0 gegn botnliði Haugesund og er í 2. sæti deildarinnar, stigi fyrir ofan Brann.

Strömsgodset er í 12. sæti með sex stig úr sjö leikjum, eftir 2-0 tap á heimavelli gegn Bryne. Seinna markið var sjálfsmark Loga Tómassonar sem samkvæmt textalýsingu Nettavisen frá leiknum var óheppinn þegar hann skallaði boltann í eigið net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×