Handbolti

„Að besta dómarapar Ís­lands sitji upp í stúku finnst mér ansi skrýtið“

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Ágúst og Bjarki Bóasson, einn af dómurum kvöldsins.
Ágúst og Bjarki Bóasson, einn af dómurum kvöldsins. Vísir/Diego

Valur sigraði í kvöld Hauka 30-28 í fyrsta leik þeirra í úrslitaeinvígi Olís deildar kvenna. Liðið er því komið með 1-0 forystu í einvíginu, en það þarf þrjá sigra til að vinna einvígið. Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins var ánægður með úrslit kvöldsins.

„Mér fannst við vera bara nokkuð sannfærandi í fyrri hálfleiknum. Varnarleikurinn var mjög góður í fyrri, ég hefði vilja geta keyrt aðeins betur en það sást kannski að liðið var aðeins laskað, lúið, og þreytt. Ég var ánægður með stöðuna í hálfleik og mér fannst sóknin bara heilt yfir góð allan leikinn. Við hins vegar missum aðeins tökin varnarlega í seinni hálfleik og það er eitthvað sem við þurfum að bæta fyrir næsta leik,“ sagði Ágúst.

Valskonur voru krýndar á dögunum Evrópubikarmeistarar, en eru því skiljanlega kannski pínu þreyttar. Það var því gríðarlega sterkt hjá þeim að hafa tekið sigurinn í fyrsta leiknum.

„Það var auðvitað bara mjög gott. Við vissum að við værum að mæta frábæru Hauka liði, með tvo frábæra þjálfara, sem spila taktískan og góðan handbolta. Þau eru með topp leikmenn í öllum stöðum. Þannig við vissum að þetta yrði bara járn í járn, og það verður það bara áfram,“ sagði Ágúst.

Ágúst ræðir við sínar konur.Vísir/Diego

„Ég set spurningamerki við hvernig dómgæslan var“

Hauka liðið pressaði mjög ofarlega á Valsliðið þegar leið að lokum síðari hálfleiks og náðu þar af leiðandi að minnka muninn. Ágúst var hins vegar ekki sáttur með hvernig dómarateymið tók á þeim kafla.

„Við sköpuðum okkur færi þá og missum boltann reyndar tvisvar sem mér fannst kannski frekar vera þreytumerki. Það er tvisvar sem að Thea spólar sig í gegn með hálft Hauka liðið á bakinu, en þeim fannst ekki ástæða til þess að reka út af. Ég set bara algjört spurningarmerki við það hvernig dómgæslan var í þessum leik, og það í báðar áttir. Það er ekki að það hallaði á okkur. Að besta dómarapar Íslands sitji upp í stúku, í fyrsta leik í úrslitakeppni, um Íslandsmeistara titilinn. Finnst mér ansi skrýtið,“ sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×