Viðskipti erlent

Fangelsis­dómar yfir stjórn­endum Volkswa­gen vegna út­blásturs­hneykslis

Kjartan Kjartansson skrifar
Volkswagen svindlaði á útblástursprófum eftirlitsstofnana með sérstökum hugbúnaði og hefur þurft að greiða milljarða í sektir og sáttir síðan.
Volkswagen svindlaði á útblástursprófum eftirlitsstofnana með sérstökum hugbúnaði og hefur þurft að greiða milljarða í sektir og sáttir síðan. Vísir/EPA

Tveir fyrrverandi stjórnendur bílaframleiðandans Volkswagen hlutu fangelsisdóma og tveir aðrir skilorðsbundna dóma fyrir svik vegna útblásturshneykslisins sem skók þýskan bílaiðnað í dag. Talið er að hneykslið hafi kostað Volkswagen meira en þrjátíu milljarða evra til þessa.

Fyrrverandi yfirmaður þróunar dísilvéla hjá Volkswagen hlaut þyngsta dóminn af fjórmenningunum sem réttað var yfir, fjögura og hálft ár í fangelsi. Fyrrverandi yfirmaður rafdrifs hlaut tveggja ára og sjö mánaða dóm sem kveðinn var upp í héraðsdómstól í Braunschweig í Norður-Þýskalandi í morgun.

Hæst setti fyrrverandi starfsmaðurinn, sem sat í stjórn þróunarmála hjá Volkswagen, fékk fimmtán mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Annar deildarstjóri hlaut 22 mánaða skilorðsbundinn dóm, að því er kemur fram í frétt þýska miðilisins Deutsche Welle.

Volkswagen var staðið að því að nota sérstakan hugbúnað til þess að láta dísilbíla sína menga minna þegar eftirlitsstofnanir tóku þá til skoðunar en þeir gerðu þegar þeir voru komnir út í umferð.

Nokkrir stjórnarmenn Volkswagen Group hafa hlotið dóma vegna svikanna, bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Fyrirtækið hefur þurft að greiða meira en þrjátíu milljarða evra í sektir og sáttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×