Viðskipti innlent

Ráðin for­stöðumaður sölu­deildar TVG-Zimsen

Atli Ísleifsson skrifar
Kristjana Þórdís Jónsdóttir.
Kristjana Þórdís Jónsdóttir. Bent Marinósson

Kristjana Þórdís Jónsdóttir hefur tekið við sem forstöðumaður söludeildar TVG-Zimsen.

Hún lauk námi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2023 og hefur starfað innan fyrirtækisins frá árinu 2019.

„Amma mín og nafna, Þórdís Ingvarsdóttir, starfaði í móttöku TVG-Zimsen í 14 ár. Þegar hún lét af störfum hóf ég sumarstarf hjá fyrirtækinu og má segja að ég hafi fetað í hennar fótspor sem litla Dísa. Á námsárunum vann ég svo með námi í hlutastarfi og fékk tækifæri til að kynnast ólíkum deildum – þjónustudeildinni, akstursdeildinni og sjó- og flugdeildinni, þar sem ég sinnti skráningu sendinga. Ég fékk einnig tækifæri til að starfa tímabundið á skrifstofu Eimskips á Grænlandi, sem var dýrmæt reynsla og gaf mér innsýn í alþjóðlega starfsemi samstæðunnar, en TVG-Zimsen er dótturfélag Eimskips,“ er haft eftir Kristjönu.

Lengst af starfaði hún við heilgámaflutninga í samstarfi við CMA CGM, þriðja stærsta skipafélag heims og TVG-Zimsen hefur verið umboðsaðili CMA CGM frá árinu 2007. „Í því starfi sinnti ég samskiptum við viðskiptavini og samstarfsaðila víða um heim, sem gaf mér mikilvæga innsýn í fjölbreytta menningarheima og alþjóðlegt viðskiptalíf,“ segir Kristjana. Eftir útskrift hóf hún fullt starf í CMA-deild fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×