Handbolti

„Erum búin að vera í fimm úrslitaleikjum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thea Imani Sturludóttir var þakklát í leikslok.
Thea Imani Sturludóttir var þakklát í leikslok. Vísir/Ernir

„Ég er bara gríðarlega þakklát og ógeðslega stolt af liðinu að hafa mætt svona til leiks,“ sagði Thea Imani Sturludóttir eftir að Valur tryggði sér sinn þriðja Íslandsmeistaratitil í kvöld.

„Þetta er bara búið að vera ógeðslega skemmtilegt, en krefjandi líka. Ég er bara ógeðslega stolt af öllum stelpunum.“

Já, krefjandi tímabil er líklega ekki nógu sterk lýsing á því sem Valsliðið hefur gengið í gengum í vetur, en liðið stóð uppi sem Íslands-, deildar- og Evrópubikarmeistari.

„Þetta er búið að vera rosalega krefjandi. Við erum búin að vera í eiginlega fimm úrslitaleikjum þannig að ná að taka þetta einvígi 3-0 er bara algjör draumur.“

Þá segir hún þetta hafa verið frábæra leið til að kveðja Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfara liðsins, sem snýr sér að karlaliði Vals á næsta tímabili.

„Að klára þetta svona þar sem við mætum bara klárar, þó leikirnir hafi kannski verið sveiflukenndir, þá náum við alltaf að rífa okkur í gang og sýna okkar rétta andlit. Bara ógeðslega gaman að geta kvatt hann svona.“

Hún segir einnig að Valsliðið hafi haft góð tök á leik kvöldsins og að það hjálpi klárlega að hafa eitt stykki Hafdísi Renötudóttur í markinu.

„Við erum náttúrulega með geggjaðan markmann fyrir aftan okkur og þegar við náum að loka vörninni og þvinga þær í erfið færi þá bara étur Hafdís þetta. Það er ekkert grín að mæta í eitthvað dauðafæri og þekur bara þrjá fjórðu af markinu. Við erum gríðarlega heppnar að hafa hana. Svo erum við líka með ótrúlega mikla vinnu í vörninni þar sem við erum allar að gefa hundrað prósent allan tímann. Það munar öllu.“

Að lokum sagðist Thea ekkert vera farin að hugsa um hvernig hún ætlaði að fagna titlinum.

„Við vorum bara að hugsa um leikinn þannig það kemur bara í ljós á eftir,“ sagði Thea að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×