Innlent

Spændi upp mosann á krossara

Agnar Már Másson skrifar
Afturhjól krossarans spændi í sig mosann.
Afturhjól krossarans spændi í sig mosann. Skjáskor/Facebook

Leiðsögumanni blöskraði þegar hann sá ökumenn krossara bruna um móa við Nesjavallaleið og tæta upp mosann á svæðinu. Utanvegaakstur er ólöglegur á Íslandi.

Teitur Þorkelsson leiðsögumaður vekur athygli á þessu og birtir myndband á Facebook þar sem sjá má ökumann spæna í sig mosa.

Teitur segir við fréttastofu að hann hafi séð tvo menn, hvor á sínum krossara, keyra utan vegar í móa við Nesjavallaleið, skammt frá Hellisheiðavirkjun. Einnig hafi vantað skráningarnúmer á ökutækin.

Engin slóð eða stígur er á svæðinu sem ekið var á og því ljóst að um utanvegaakstur sé að ræða, sem er ólöglegur á Íslandi. 

Undanþágu fyrir slíkum akstri er aðeins hægt að fá frá Umhverfisstofnun eða öðrum yfirvöldum.

Teitur segist hafa reynt að benda ökumanni á að athæfið væri ólöglegt. Ökumaðurinn hafi svarað á ensku og ekki virst skilja eða skeyta um ábendinguna, og síðan haldið áfram akstrinum.

„Það er ömurlegt að sjá einhvern gera eitthvað svona,“ segir Teitur, „sama hvort það er í bíl eða mótorhjóli. Skiptir engu máli. Það er verið að keyra í móa á grasi á þessu landi sem er svo viðkvæmt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×