Innlent

Gosmóðan fýkur á brott

Árni Sæberg skrifar
Gosmóðan getur farið illa í marga.
Gosmóðan getur farið illa í marga. Vísir/Ívar Fannar

Gosmóðan sem hefur gert íbúum suðvesturhornsins lífið leitt síðustu daga fýkur að öllum líkindum á brott í norðaustur með vaxandi suðvestanátt í fyrramálið. Hennar verður þó enn vart á Suðurnesjum.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar í morgun segir að virkni í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni sé enn stöðug. Þar segir jafnframt að seinnipartinn í gær og fram á kvöld hafi gasmengun mælst á suðvestur- og suðurhluta landsins. 

Í dag muni mengunin berast til austurs og norðausturs. Þannig gæti hennar orðið vart á Suðurlandi í dag og á höfuðborgarsvæðinu í kvöld.

Vindur og rigning

Undanfarna daga hefur blámóða, eða svokölluð gosmóða, legið víða yfir landinu, helst á suður- og vesturhluta landsins. Blámóða er gömul gasmengun sem búin er að hvarfast og því mælist hún ekki beint á mælum Umhverfis- og orkustofnunar, sem nema hana sem „fínt svifryk“.

Það horfir breytinga á morgun með vaxandi suðaustanátt, sem verður á bilinu átta til fimmtán metrar á sekúndu, hvassast vestan- og sunnantil, að sögn Marcels de Vries, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Með henni fjúki gosmóðan frá höfuðborgarsvæðinu í norðvesturátt. Þá fylgi lægðinni úrkoma, sem dragi enn frekar úr gosmóðunni. Hennar verði aðeins vart á Suðurnesjum.

Erfitt að segja til um framhaldið

Aftur á móti dragi fljótt úr vindi þrátt fyrir að stöðugt gott veður sé ekki í kortunum næstu daga. Úrkoma verði víðast hvar næstu daga en ekki stöðug.

„Það er erfitt að segja [varðandi gosmóðu] af því að af og til verður hæg breytileg átt og þá þarf ekki mikinn tíma til að gosmóðan safnist aftur. Við þurfum að skoða þetta á hverjum degi.“


Tengdar fréttir

Loftgæði mun betri á höfuðborgarsvæðinu

Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu mælast töluvert betri í dag en í gær. Enn er þó svifryksmengun yfir Reykjanesskaga og á Ísafirði mælast loftgæði óholl. Á miðvikudag gæti síðan aftur farið að byggjast upp mengun á gosstöðvunum vegna hægs vinds.

„Það þarf ekki alveg að halda sig innandyra“

Mælt er með því að takmarka mikla áreynslu utandyra vegna talsverðrar gasmengunar sem hefur gert vart við sig á höfuðborgarsvæðinu það sem af er dagi. Lungnalæknir segir að hraust fólk yfir tvítugu þurfi ekki að hafa áhyggjur af menguninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×