Íslenski boltinn

Tómas Bent nálgast Edin­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tómas Bent fagnar einu af mörkum sínum í sumar.
Tómas Bent fagnar einu af mörkum sínum í sumar. Vísir/Anton Brink

Miðjumaðurinn Tómas Bent Magnússon er við það að ganga í raðir Hearts sem kemur frá Edinborg og leikur í efstu deild skosku knattspyrnunnar. Tómas Bent var ekki með Val þegar liðið styrkti hirti toppsæti Bestu deildarinnar með 3-1 sigri á FH.

Fótbolti.net greinir frá því að Valur hafi samþykkt tilboð Hearts og að Tómas Bent sé nú á leið til Skotlands að ganga frá félagaskiptunum.

Hinn 23 ára gamli Tómas Bent samdi við Val fyrir yfirstandandi tímabil eftir að hafa leikið allan sinn feril með uppeldisfélaginu ÍBV.

Til þessa hefur Tómas Bent spilað 10 deildarleiki og skorað í þeim tvö mörk. Þá skoraði miðjumaðurinn tvö mörk í 3-0 sigri Vals á Flora Tallinn í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu. Hann er stór ástæða þess að Valsmenn hafa ekki saknað reynsluboltans Gylfa Þórs Sigurðssonar sem gekk í raðir Víkinga eftir mikið fjaðrafok.

Þegar 16 umferðir eru búnar í Bestu deild karla er Valur á toppi deildarinnar með 33 stig. Þar á eftir koma Víkingur og Íslandsmeistarar Breiðabliks með 31 stig. Fram er svo í 4. sæti með 24 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×