Innlent

Gat ekki sannað að verk­stæðið tjónaði vélina

Agnar Már Másson skrifar
Héraðsdómur Vestfjarða er á Ísafirði.
Héraðsdómur Vestfjarða er á Ísafirði. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Vestfjarða hefur sýknað bátaverkstæði í Bolungarvík af kröfum fiskiútgerðarinnar Glifsu, sem tókst ekki að sanna að verkstæðið hafi valdið tjóni í bátsvél útgerðarinnar. Margt annað gæti hafa átt sinn þátt í biluninni, til dæmis að vélin væri sautján ára gömul.

Ágreiningur málsins snýst um viðgerð á bátsvél í bátnum m/b Naustvík ST 80, sem er í eigu Glifsu ehf. í Ólafsvík. 

Báturinn varð fyrir tjóni árið 2018 vélin fór í viðgerð hjá Vélasmiðjunni og Mjölni á tímabilinu 26. ágúst 2018 til 5. apríl 2019. Glifsa vildi meina að eftir afhendingu hafi virkaði vélin ekki virkað sem skyldi og að skipta hafi þurft um vél í bátnum árð 2020 sem hafi kostað 5 milljónir króna. 

Glifsa taldi sig eiga fjárkröfu vegna tjóns sem rekja mætti til vanrækslu eða mistaka vegna viðgerðar Vélsmiðjunnar og krafðist skaðabóta að fjárhæð 5.359.000 króna.

Vélsmiðjan taldi Glifsu vanreifa málið og krafðist sýknu. Verkstæðið hélt því fram að það hafi ekki tekið ákvörðun um viðgerðina, heldur vátryggingafélagið VÍS, og taldi kröfuna fyrnda og að Glifsa hafi sýnt tómlæti. Þá mótmælti Vélsmiðjan því að viðgerðin hafi valdið gallanum og benti á að vélin hafi virkað sumarið 2019.

Dómurinn féllst á endanum ekki á kröfur Glifsu, sem vísaði til laga um lausafjárkaup í málinu. Héraðsdómur sýknaði því Vélsmiðjuna þar sem Glifsu, sem bar sönnunarbyrði, tókst ekki að sýna fram á að viðgerðin hafi valdið biluninni. Dómskvaddur matsmaður taldi að verklag stefnda hafi verið nægjanlegt. Bilunin gæti átt sér margar skýringar enda væri vélin sautján ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×