Enski boltinn

„Úr­vals­deildar­liðum verður ekki fækkað niður í 18“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, tekur í höndina á Kevin De Bruyne, fyrrverandi leikmanni Manchester City sem leikur nú með Napoli á Ítalíu.
Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, tekur í höndina á Kevin De Bruyne, fyrrverandi leikmanni Manchester City sem leikur nú með Napoli á Ítalíu. Vísir/Getty Images

Liðum í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta verður ekki fækkað úr 20 niður í 18. Þetta segir framkvæmdastjóri deildarinnar, Richard Masters, en mikil togstreita er milli deildarinnar og FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, vegna fjölda landsleikja.

Enska úrvalsdeildin hefst þann 15. ágúst næstkomandi og stendur yfir næstu 11 mánuðina ef heimsmeistaramót landsliða sem fram fer í Bandaríkjunum sumarið 2026. Úrslitaleikur HM fer fram þann 19. júlí á næsta ári.

Tímabilið í ár byrjar aðeins þremur vikum eftir að Chelsea lagði París Saint-Germain í úrslitum HM félagsliða, sem einnig fór fram í Bandaríkjunum.

Á síðasta ári sagði Rodri, miðjumaður Manchester City, að leikmenn væru nálægt því að fara í verkfall vegna fjölda leikja. Þá hafa verið orðrómar þess efnis að enska úrvalsdeildin færi að fordæmi Ligue 1 í Frakklandi þar sem liðum var fækkað úr 20 í 18 fyrir tímabilið 2023-24.

„Ég tel ólíklegt að við verðum þvinguð í þá ákvörðun,“ sagði Masters í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC.

„Ég er hlynntur útbreiðslu leiksins og spennandi móta sem félög okkar geta tekið þátt í en ekki á kostnað deildarkeppninnar heima fyrir,“ bætti hann við.

Englandsmeistarar Liverpool opna ensku úrvalsdeildina með leik gegn Bournemouth þann 15. ágúst næstkomandi. Allir 380 leikirnir í ensku úrvalsdeildinni verða sýndir á rásum Sýn Sport.

Hér má tryggja sér áskrift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×