Erlent

Gagn­rýndur fyrir að nota gervi­greind í em­bættis­störfum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kristersson var opinskár um gervigreindarnotkun í störfum sínum sem forsætisráðherra.
Kristersson var opinskár um gervigreindarnotkun í störfum sínum sem forsætisráðherra. EPA

Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar sagðist í viðtali á dögunum nota gervigreindartól á borð við ChatGPT og LeChat í embættisstörfum sínum. Fyrir það hefur hann verið gagnrýndur þar í landi. 

Í viðtali við sænska miðilinn Dagens industri sagðist Kristersson iðulega grípa í gervigreindartól í störfum sínum sem forsætisráðherra. Samstarfsfólk hans geri slíkt hið sama. 

„Sjálfur nota ég hana frekar oft. Þó einungis til að fá álit þriðja aðila: Hvað hafa aðrir gert? Og ættum við að halda því gagnstæða fram? Svoleiðis spurningar.“

Sérfræðingar hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir að nota gervigreind með þessum hætti. Í ritstjórnargrein Aftonbladet er Kristersson sakaður um að falla fyrir „gervigreindargeðrofi fámennisstjórnarinnar“.

„Kusum ekki ChatGPT“

Virginia Dignum prófessor í grevigreindartækni við Háskólann í Umeå í Svíþjóð hefur jafnframt gagnrýnt gervigreindarnotkun Kristersson. Hún segir enga gervigreindartækni í stakk búna til að leggja fram merkingarbæra skoðun á stjórnmálum. Þær hugmyndir og skoðanir sem gervigreind leggur fram í í þeim efnum endurspegli einungis viðhorf þeirra sem þróuðu tæknina. 

„Því oftar sem hann reiðir sig á gervigreind fyrir einföld atriði, því líklegra er að hann leggi of mikið traust á tæknina. Hann er á hálum ís,“ sagði Dignum í samtali við sænska miðilinn Dagens Nyheter.

„Við verðum að krefjast áreiðanleika í þessum efnum. Við kusum ekki ChatCPT.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×