Fótbolti

Hólm­bert Aron til Suður-Kóreu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hólmbert Aron er mættur til S-Kóreu.
Hólmbert Aron er mættur til S-Kóreu. Gwangju FC

Framherjinn Hólmbert Aron Friðjónsson hefur samið við lið Gwangju FC í Suður-Kóreu. Hann er fyrsti Íslendingurinn til að spila í efstu deild þar í landi.

Félagið sjálft hefur greint frá komu hins 32 ára Hólmberts. Hann er samkvæmt Wikipedia-síðu sinni 1.96 metri á hæð og það virðist hafa heillað forráðamenn liðsins.

Í tilkynningu félagsins segir að það hafi verið í leit að hávöxnum framherja sem gæti sömuleiðis klárað færin sín. Gwangju er sem stendur í 6. sæti K League 1, efstu deildar Suður-Kóreu, með 32 stig að loknum 24 leikjum. Liðið hefur aðeins skorað 25 mörk og því er mikil pressa á að Hólmbert Aron komi inn af krafti.

Suður-Kórea verður áttunda landið sem framherjinn hávaxni spilar í. Hér á landi hefur hann leikið með uppeldisfélagi sínu HK, Fram, KR og Stjörnunni. 

Hann fór fyrst ytra til að spila fyrir Celtic í Skotlandi. Þaðan lá leiðin til Bröndby í Danmörku á láni. Hann raðaði inn mörkum fyrir Álasund í Noregi og hefur einnig spilað fyrir Lilleström þar í landi. Stoppaði stutt við hjá Brescia á Ítalíu og hefur undanfarin ár verið í Þýskalandi. Fyrst hjá Holsten Kiel og svo síðast Preussen Münster í Þýskalandi.

Samningur hans við síðastnefnda félagið rann út í sumar og því fær Gwangju uppalda HK-inginn á frjálsri sölu.

Hólmbert Aron hefur spilað sex A-landsleiki og skorað tvö mörk. Þá lék hann 20 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skoraði 8 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×