Íslenski boltinn

„Ég hef aldrei séð Stjörnuna spila svona“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúnar Kristinsson er þjálfari Fram
Rúnar Kristinsson er þjálfari Fram Vísir/Diego

„Ég er mjög ósáttur að við höfum ekki unnið, á miðað við hvernig leikurinn spilaðist,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, eftir 1-1 jafntefli hans manna við Stjörnuna í Úlfarsárdal í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Framarar voru með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik og var raunar hreinlega ótrúlegt að staðan hafi verið markalaust í hálfleik. 

„Fyrri hálfleikurinn var frábær af okkar hálfu, einn af okkar betri í sumar. Við sköpuðum fullt af góðum tækifærum til að skora og nýtum ekkert af þeim,“ segir Rúnar í samtali við Ágúst Orra Arnarson á Sýn Sport eftir leik.

Leikurinn snerist lítillega eftir hléið og Stjarnan var hættulegri eftir að Fram komst yfir á 60. mínútu. Stjarnan jafnaði í kjölfarið og var líklegri aðilinn til að taka öll stigin þrjú eftir að komið var í 1-1 stöðu.

Rúnar segir sína menn hafa lent í vandræðum þegar Stjarnan fór að sparka boltanum langt upp völlinn.

„Mér fannst Stjarnan betri í seinni hálfleik. Ég hef aldrei séð Stjörnuna spila svona fótboltaleik eins og þeir gerðu í dag. Árni var meira og minna að negla fram á Andra Rúnar í seinni hálfleik og ég var mjög ánægður með mitt lið að það skildi vera eina lausnin þeirra,“

„Ég var mjög ánægður með mitt lið að þetta skyldi vera eina leiðin þeirra en þeir sköpuðu fullt með þessari leikaðferð. Eftir að við komumst yfir áttu þeir sénsa til að jafna og hugsanlega átt að fá vítaspyrnu og ýmisslegt annað en við áttum urmul af góðum skyndisóknum og ég er ósáttur við að við höfum ekki komist í 2-0 áður en þeir jafna. Þess vegna er ég mjög ósáttur við þetta jafntefli,“ segir Rúnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×