Lífið

Fyrr­verandi eigin­maður Kel­ly Clark­s­on látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Brandon Blackstock og Kelly Clarkson á viðburði árið 2020. Þau skildu árið 2022.
Brandon Blackstock og Kelly Clarkson á viðburði árið 2020. Þau skildu árið 2022. Getty

Brandon Blackstock, umboðsmaður og fyrrverandi eiginmaður bandarísku söngkonunnar og þáttastjórnandans Kelly Clarkson, er látinn, 48 ára að aldri.

Greint var frá andláti Blackstock í gær en í tilkynningu kom fram að hann hafi glímt við krabbamein um þriggja ára skeið.

Blackstock og Clarkson gengu í hjónaband árið 2013 skildu árið 2022 en þau eignuðust saman tvö börn – dótturina River Rose sem fæddist árið 2014 og soninn Remington Alexander sem fæddist 2016.

„Það er með mikilli sorg sem við deilum þeim fréttum að Brandon Blackstock sé látinn,“ sagði í yfirlýsingu frá aðstandenum Blackstock. „Brandon hafði glímt við krabbamein af hugrekki um rúmlega þriggja ára skeið. Hann lést í faðmi fjölskyldu sinnar.“

Clarkson, sem var fyrst til að vinna American Idol árið 2002 og hefur þrívegis unnið til Grammy-verðlauna, greindi frá því fyrr í vikunni að hún hafi þurft að aflýsa restina af tónleikaferð sinni til að vera til staðar fyrir fjölskyldu sína. Hún sagði á Instagram að barnsfaðir hennar hafi verið að glíma við veikindi og að hún yrði að vera til staðar fyrir börn sín.

Clarkson og börn hennar búa í New York en hún stýrir þaðan spjallþættinum The Kelly Clarkson Show.

Blackstock lætur einnig eftir sig börnin Savannah Blackstock og Seth Blackstock sem hann eignaðist með fyrrverandi eiginkonu sinni, Melissa Ashworth.

Narvel Blackstock, faðir Brandon, var eitt sinn giftur kántrítónlistarkonunni Rebu McEntire og var hún því eitt sinn stjúpmóðir Brandon Blackstock.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.