Enski boltinn

Bale af golf­vellinum og á skjáinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kann vel við sig á vellinum þó hann sé ekki að spila sjálfur.
Kann vel við sig á vellinum þó hann sé ekki að spila sjálfur. Michael Regan/Getty Images

Þrátt fyrir að hafa lagt skóna á hilluna og snúið sér nær alfarið að golfi hefur Gareth Bale ákveðið að halda sér í sviðsljósinu með því að semja við TNT Sports. Mun hann vera hluti af teymi fjölmiðilsins í kringum ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu.

Hinn 26 ára gamli Bale gerði garðinn frægan hjá Tottenham Hotspur og Real Madríd ásamt því að spila 111 A-landsleiki fyrir Wales. Um tíma var hann einn besti leikmaður heims en oftar en ekki var efast um ástríðu hans fyrir leiknum.

Bale sjálfur ýtti undir slíka orðróma með því að gefa í skyn að honum fyndist skemmtilegra í golfi. Áhuginn á fótbolta er hins vegar slíkur að hann hefur nú skrifað undir eins árs samning við TNT Sports.

Segja má að Bale sé að leysa Rio Ferdinand af hólmi sem ákvað eftir tólf ár hjá fjölmiðlinum að kalla þetta gott. Ferdinand ætlar að eltast við önnur viðskiptatækifæri og eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni.

TNT Sports hefur ekki kynnt teymi sitt fyrir komandi tímabil en hefur opinberað að Bale er ekki eina nýja nafnið sem mætir til leiks. Michail Antonio, sem spilaði í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð er meðal þeirra sem munu starfa fyrir TNT Sports á komandi tímabili. Þær Fara Williams, Jen Beattie og Anita Asante munu sömuleiðis ganga til liðs við TNT-fjölskylduna.

TNT Sports mun sýna 52 leiki ensku úrvalsdeildarinnar á komandi tímabili, þar af verða 32 hádegisleikir.

Sýn Sport mun sýna alla 380 leiki ensku úrvalsdeildarinnar í beinni útsendingu. Deildin hefst á föstudaginn kemur með leik Liverpool og Bournemouth.

Hér má tryggja sér áskrift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×