Íslenski boltinn

„Ó­reyndir dómarar sem falla í þessa gryfju“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lárus Orri var mjög ósáttur með Helga Mikael og hina dómara leiksins.
Lárus Orri var mjög ósáttur með Helga Mikael og hina dómara leiksins. skjáskot

„Þegar þessi skrípaleikur fer af stað hérna á fertugustu mínútu hefðum við átt að vera búnir að klára leikinn“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, eftir 3-2 tap gegn FH. Skagamenn byrjuðu leikinn mun betur og komust tveimur mörkum yfir, en svo hófst það sem Lárus kallar „skrípaleik.“

Heimaliðið FH var öllum heillum horfið í upphafi leiks og lenti tveimur mörkum undir gegn Skagamönnum sem byrjuðu sterkt. Þá tók Heimir Guðjónsson góða ákvörðun og ákvað að næla sér í rautt spjald, til að kveikja bál undir sínum mönnum.

„Það var bara eitt lið á vellinum þegar það fer viss leikþáttur í gang… Heimir er bara að æsa upp í lýðnum og mannskapnum og það eru óreyndir dómarar hérna sem falla í þessu gryfju.“

Sagði Lárus um atvikið þegar Heimir Guðjónsson arkaði yfir á varamannabekk ÍA og stakk saman nefjum við Dean Martin, aðstoðarþjálfara ÍA.

„Þetta er bara bull, það á bara að segja: Hættið þessu og áfram með leikinn.

En fyrst þeir ákváðu að henda rauðu spjaldi á menn hlýtur aganefndin að skoða þetta, kíkja á þetta svokallaða headbutt hjá honum Heimi. Hann hlýtur að fá þriggja leikja bann fyrir þetta, úr því að honum er hent út á annað borð.

Að mínu mati hefði bara átt að segja mönnum að hætta þessu kjaftæði og halda áfram með leikinn.“

Hvaða kjaftæði var þetta, átti Heimir eitthvað vantalað við Dean Martin?

„Þú verður að spyrja Heimi að því, en hann var bara að kynda. Þeir voru í vandræðum og hann þurfti að gera eitthvað, og það tókst…“

Lárus hélt áfram að benda á ýmislegt sem dómarar leiksins hefðu mátt gera betur, hann var mjög ósáttur við þeirra störf, fyrri vítaspyrnudóminn og gula spjaldið sem hann fékk. Hann var þá spurður hvort dómgæslan hefði verið valdur að tapinu.

„Sko, það sem gerist hérna á náttúrulega ekki að gerast. Reyndur dómari hefði sussað á menn og haldið áfram með leikinn.

Það sem fór svo í gang er ákveðinn lærdómur fyrir okkur, hvernig á að bregðast við svona hlutum. Við hefðum átt að hægja meira á leiknum og stoppa það sem þeir voru að gera.

Það sem gerist svo í seinni hálfleik, hvers vegna þeir ná að pinna okkur niður svona lengi, það er eitthvað sem við þurfum að skoða og kemur engum dómurum við í rauninni.“

KR vann Aftureldingu í kvöld, sem þýðir að Skagamenn eru núna fjórum stigum frá næsta liði fyrir ofan.

„Bara áfram gakk. Það eru 27 stig eftir í pottinum. Hellingur eftir að gerast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×