Viðskipti innlent

Stækka hótelveldið á Suður­landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir á tæplega helming í JAE ehf. sem bætir við sig 74 herbergjum á Selfossi.
Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir á tæplega helming í JAE ehf. sem bætir við sig 74 herbergjum á Selfossi.

Félagið JAE ehf. hefur gengið frá kaupum á Hótel South Coast, sem er nýlegt hótel staðsett í miðbæ Selfoss. Hótelið er með 74 herbergjum, veitingaaðstöðu, heilsulind, líkamsræktaraðstöðu og fundarrýmum, sem gerir það að eftirsóttum ferðamannastað á Suðurlandi að því er segir í tilkynningu frá JAE ehf.

Félagið er að mestu í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur og Aðalsteins Jónssonar Þorsteinssonar. Ingibjörg er stór fasteignaeigandi, sérstaklega neðst á Hverfisgötunni í miðbæ Reykjavíkur þar sem er meðal annars að finna 101 hótel í hennar eigu. Aðalsteinn starfar sem framkvæmdastjóri vinnustofu Kjarvals í Austurstræti en hefur um leið stækkað eignasafn sitt í hótelbransanum á Suðurlandi. Hann er ættaður af Eskifirði en hann er barnabarn Aðalsteins Jónssonar, betur þekktur sem Alli ríki.

JAE ehf. má með sanni kalla hótelveldi á Suðurlandi. Það rekur nú þegar Hótel Selfoss og Hótel Vestmannaeyjar, ásamt fasteignum sem tengjast þeim rekstri. Um er að ræða hótelstarfsemi með samtals yfir 300 herbergi á Suðurlandi. Auk þess leigir JAE út íbúðir og einbýlishús í Vestmannaeyjum, sem hluta af starfsemi sinni.

Með þessum nýju kaupum nemur heildarfermetrafjöldi fasteigna í eigu félagsins um 16 þúsund fermetrum. Björgvin Jóhannesson hótelstjóri Hótel Selfoss mun einnig verða hótelsstjóri fyrir Hótel South Coast.

„Þessi kaup eru í samræmi við trú eigenda á því að ferðaþjónustan á Suðurlandi muni halda áfram að styrkjast á komandi árum,“ segir Aðalsteinn í tilkynningu.

„Við munum áfram leita tækifæra á þessu svæði sem styðja við langtímaáætlanir okkar og vöxt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×