Enski boltinn

Liverpool kaupir ungan ítalskan miðvörð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Giovanni Leoni er efnilegur miðvörður.
Giovanni Leoni er efnilegur miðvörður. LIVERPOOL

Liverpool hefur fest kaup á hinum átján ára gamla ítalska miðverði Giovanni Leoni frá Parma. Hann kemur til félagsins fyrir um 26 milljónir punda, auk mögulegra bónusgreiðslna.

Leoni er sjötti leikmaðurinn sem Liverpool kaupir í sumar og félagið hefur nú eytt alls rúmlega 320 milljónum punda í nýja leikmenn, sem er í heildina þriðji stærsti félagaskiptagluggi eins liðs í enska boltanum.

Ef Liverpool gengur frá fyrirhuguðum kaupum á Alexander Isak mun félagið slá metið.

Liverpool hefur þó selt marga leikmenn á móti og fengið til baka um 200 milljónir fyrir þá Luis Diaz, Darwin Nunez og Jarrell Quansah meðal annars.

Leoni skrifaði undir sex ára samning en á eftir að fá atvinnuleyfi á Englandi og er því ekki löglegur með liðinu í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar gegn Bournemouth í kvöld.

Hann er hávaxinn, um 194 sentimetrar að hæð og hefur spilað fyrir yngri landslið Ítalíu. Á síðasta tímabili lék hann sautján leiki með Parma í ítölsku úrvalsdeildinni.

Opnunarleikur ensku úrvalsdeildarinnar, þar sem Englandsmeistarar Liverpool taka á móti Bournemouth, verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport. 

Flautað verður til leiks klukkan sjö en hálftíma fyrr hefst upphitun þar sem að Kristjana Arnarsdóttir rýnir í stöðuna ásamt sérfræðingum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×