Fótbolti

Neymar há­grét eftir skell gegn Coutinho og fé­lögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar gekk grátandi af velli eftir neyðarlegt tap Santos fyrir Vasco da Gama.
Neymar gekk grátandi af velli eftir neyðarlegt tap Santos fyrir Vasco da Gama. getty/Riquelve Nata

Illa gengur hjá Neymar og félögum hans í brasilíska fótboltaliðinu Santos og gengi þess hefur mikil áhrif á stórstjörnuna.

Santos tapaði 0-6 fyrir Vasco da Gama í gær. Þetta var í fyrsta sinn sem Santos fær á sig sex mörk á heimavelli í leik í efstu deild og þá var þetta stærsta tapið á ferli Neymars. Hann átti erfitt með sig eftir leikinn og hágrét.

„Ég skammast mín. Ég er svo vonsvikinn með frammistöðu okkar. Stuðningsmennirnir eru í fullum rétti til að mótmæla, þó án þess að beita ofbeldi. En ef þeir vilja blóta og móðga hafa þeir rétt á því. Viðhorf okkar á vellinum var hræðilegt,“ sagði Neymar í leikslok.

„Ég hef aldrei upplifað svona lagað áður. Ég grét af reiði og vegna alls. Því miður get ég ekki hjálpað á allan hátt. Nú þurfa allir að fara heim og hugsa hvað þeir vilja gera.“

Knattspyrnustjóri Santos, Cleber Xavier, var látinn taka pokann sinn skömmu eftir leikinn í gær.

Philippe Coutinho, fyrrverandi samherji Neymars í brasilíska landsliðinu, skoraði tvö mörk fyrir Vasco da Gama sem vann sinn stærsta deildarsigur í sautján ár í gær.

Neymar gekk í raðir uppeldisfélags síns frá Al Hilal í byrjun þessa árs. Síðan þá hefur hann leikið 21 leik fyrir Santos og skorað sex mörk.

Neymar, sem er 33 ára, er markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins með 79 mörk.

Santos er í 15. sæti brasilísku úrvalsdeildarinnar með 21 stig, tveimur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×