Fótbolti

Heimta að Ísrael verði vísað úr keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísraelsmaðurinn Gabriel Kanichowsky í leik á móti Íslandi í umspili um sæti á síðasta EM.
Ísraelsmaðurinn Gabriel Kanichowsky í leik á móti Íslandi í umspili um sæti á síðasta EM. Getty/Alex Nicodim

Samtök knattspyrnuþjálfara á Ítalíu (AIAC) hafa skrifað opinbert bréf þar sem fram kemur krafa þeirra um að Ísrael verði vísað úr öllum íþróttakeppnum vegna grimmilegrar framkomu þeirra og stríðsglæpa á Gaza ströndinni.

Samtökin sendu bréfið til forseta ítalska knattspyrnusambandsins þar sem þau heimta að Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, og Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, banni ísraelsk landslið frá þátttöku á mótum.

„Dagleg fjöldamorð hafa endað líf fjölda knattsyrnustjóra, þjálfara og íþróttafólks og þar á meðal er palestínska knattspyrnugoðsögnin Suleiman Al-Obeid. Það er þeirra vegna sem okkar samtök (AIAC) telja að það sé löglegt, nauðsynlegt og hrein skylda okkar að krefjast þess að bæði UEFA og FIFA, setji landslið Ísrael í tímabundið bann frá öllum keppnum,“ segir í bréfinu.

Síðan að stríð Ísraels og Hamas samtakanna hófst hafa sextíu þúsund Palestínumenn látið lífið.

Ísraelska knattspyrnulandsliðið hefur fengið að halda áfram í keppnum sínum eins og ekkert hafi gerst og er í riðli með Noregi og Ítalíu í undankeppni HM 2026.

Ítalía mætir Ísrael á hlutlausum velli í Debrecen í Ungverjalandi 8. september. Ísraelska liðið mætir síðan til Noregs í október.

Í Noregi hafa margir krafist þess að norska karlalandsliðið neiti að spila þennan leik við Ísrael en norska knattspyrnusambandið segir að það sé ekki rétta leiðin.

Í staðinn ætlar norska knattspyrnusambandið að gefa allan hagnað að sölu miða á Ísraelsleikinn til góðgerðasamtaka á Gaza ströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×