Enski boltinn

Ófriðar­bál hjá For­est og stjórinn mögu­lega rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Nuno Espirito Santo þykir orðinn valtur í sessi en það hefur ekkert að gera með úrslit hjá Nottingham Forest.
Nuno Espirito Santo þykir orðinn valtur í sessi en það hefur ekkert að gera með úrslit hjá Nottingham Forest. EPA/VINCE MIGNOTT

Þrátt fyrir gott gengi Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta virðist mikið ósætti ríkja á milli eigandans og knattspyrnustjórans Nuno Espirito Santo. Sá síðarnefndi hellti bensíni á bálið á blaðamannafundi í dag og er jafnvel talið að hann verði rekinn.

Ítalski blaðamaðurinn Matteo Moretto greindi frá því í morgun að gríski eigandinn Evangelos Marinakis væri að íhuga að reka Nuno.

Ástæðan er ekki árangur Forest því liðið leikur í Evrópudeildinni í vetur eftir að hafa náð 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, og hóf svo nýja leiktíð á öruggum 3-1 sigri gegn Brentford.

Ósættið stafar af skiptum skoðunum á kaupstefnu sumarsins en Nuno var opinskár í viðtali við Sky Sports í síðustu viku um þessi mál.

„Við erum ansi fjarri lagi hvað varðar leikmannahópinn. Áætlanir okkar gengu ekki upp. Undirbúningurinn hvað varðar leikmannahópinn var ekki ákjósanlegur. Við vitum ekki hvernig hópurinn verður. Við erum með menn hérna sem vita að þeir fara að láni. Við glímum við stór vandamál,“ sagði Nuno við Sky.

Moretto sagði svo í dag að Forest væri að skoða aðra kosti og hefur Ange Postecoglou, fyrrverandi stjóri Tottenham, þegar verið orðaður við liðið.

Á blaðamannafundi í dag var Nuno spurður út í orðróminn um ósættið við Marinakis og sagði:

„Þar sem er reykur, þar er eldur.“

Það virðist því engu máli skipta þó að Portúgalinn hafi komið Forest í Evrópukeppni í fyrsta sinn í þrjátíu ár, og skrifað undir nýjan samning til þriggja ára í júní síðastliðnum. Þeir Marinakis eru hættir að eiga í stöðugum samskiptum eins og áður.

„Ég hef alltaf átt í góðu sambandi við eigandann. Á síðustu leiktíð var það mjög náið, nánast á hverjum degi. Á þessu tímabili er það ekki eins gott en ég tel að það sé alltaf best að segja sína skoðun því það sem skiptir mig máli er leikmannahópurinn og tímabilið fram undan, en samband okkar hefur breyst,“ sagði Nuno.

Aðspurður hvað hefði breyst svaraði hann: „Ég veit það ekki alveg en ég er hreinskilin með það að sambandið er breytt. Ástæðuna veit ég ekki. Það sem ég sagði í síðustu viku var eitthvað sem ég hef áhyggjur af og ástæður þess. Mitt starf er nefnilega alltaf að reyna að sjá fyrir um hvað bíður okkar, og það er það sem ég sagði og ég sagði það með virðingu,“ sagði Nuno.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×