Innlent

Hátt í tveggja tíma veðmálaauglýsing í boði Rúv

Agnar Már Másson skrifar
„Þetta verður ekki svona á Eurobasket,“ segir íþróttastjóri RÚV en hann segir atvikið óheppilegt.
„Þetta verður ekki svona á Eurobasket,“ segir íþróttastjóri RÚV en hann segir atvikið óheppilegt. Vísir/Vilhelm

Veðmálasíðan Betsson fékk óvænt að auglýsa í beinni útsendingu á Rúv í kvöld þegar íslenska landsliðið í körfuknattleik keppti æfingarleik gegn Litháum, þar sem Rúv hafði keypt útsendingu frá Litháen með fastri auglýsingu. Veðmálaauglýsingar eru ólöglegar á Íslandi og íþróttastjóri Rúv segir málið óheppilegt. Slíkt muni ekki gerast aftur. 

Íslenska landsliðið í körfubolta atti í dag kappi við Litháa á æfingarleik fyrir Evrópumótið sem hefst um mánaðamótin. 

Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á Rúv en myndefnið var fengið frá litháískri sjónvarpsstöð en þar var auglýsing fyrir sænsku veðmálasíðuna Betsson í stigaborðanum.

Betsson auglýsingain stóð óbreytt í borðanum allan leikinn. Vissulega er hún á Litháísku.Skjáskot/Rúv

Fyrirtækið fékk þannig að auglýsa á Ríkisútvarpinu í tæplega tvær klukkustundir, þó vissulega á litháísku. Betsson er styrktaraðili litháíska landsliðsins en mikið hefur farið fyrir veðmálasíðunni í Evrópu síðustu áratugi og hefur fyrirtækið sótt á íslenskan markað um hríð.

Hilmar Björnsson, íþróttastjóri Rúv, segir málið óheppilegt og útskýrir að litháíska stöðin sem Rúv keypti útsendinguna frá hafi ekki getað boðið upp á grafíklausa útsendingu þegar kallað var eftir því eftir að leikurinn hófst. Og því hafi Rúv ekki getað sett sína eigin grafík á skjáinn.

Hann útskýrir að yfirleitt þegar ríkissjónvarpið kaupi íþróttaefni erlendis frá fylgi með klukka og stigaspjald, og stundum séu auglýsingar þar fyrir fyrirtæki, til dæmis Rólex, Seico eða alþjóðlega styrktaraðila.

„En þetta kom mínu fólki í algjörlega opna skjöldu, því að þarna er fyrirtæki sem við vissum ekkert af,“ segir hann. „Við verðum að vera á varðbergi fyrir að það séu að koma auglýsingar frá fyrirtækjum sem eru bannaðar á Íslandi.“

Hilmar tekur þó fram að það megi ekki búast við veðmálaauglýsingum á sjálfu mótinu.

„Þetta verður ekki svona á Eurobasket og ég efast um að þetta gerist aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×