Enski boltinn

Sjáðu Greal­ish fara á kostum og öll mörkin í gær

Siggeir Ævarsson skrifar
Hamingjan skín úr augum Jack Grealish sem fagnar hér með Idrissa Gueye í leikslok í gær
Hamingjan skín úr augum Jack Grealish sem fagnar hér með Idrissa Gueye í leikslok í gær Vísir/Getty

Þrír leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í gær og við færum ykkur að sjálfsögðu brot af því bestu úr þeim leikjum og auðvitað öll mörkin sem litu dagsins ljós.

Jack Grealish var allt í öllu í sóknarleik Everton í gær þegar liðið lagði Brighton 2-0 í fyrsta leik liðsins á nýjum heimavelli, Hill Dickinson. Grealish lagði upp bæði mörk Everton og það er ljóst að hann er sáttur á nýjum stað og ekki loku fyrir það skotið að hann muni ganga í gegnum endurnýjun lífdaga sem knattspyrnumaður í vetur ef fram heldur sem horfir.

Í Lundúnum sóttu Manchester United heimamenn í Fulham heim en bæði lið freistuðu þess að ná í sinn fyrsta sigur. Gestirnir voru mun sprækari framan af en það er gömul saga og ný að United gengur illa að nýta færin. Virðist þar engu skipta þó nýir menn séu mættir í framlínuna en Matheus Cunha fór illa með tvö dauðafæri í upphafi leiks.

Fyrirliði United, Bruno Fernandes, brenndi svo hressilega af víti en bæði lið náðu loks að koma boltanum í netið í seinni hálfleik, lokatölur 1-1 og bæði lið bíða enn eftir sigri.

Þá mættust Crystal Palace og Nottingham Forest þar sem fáni stuðningsmanna Palace varð jafnvel meira fréttaefni en leikurinn sjálfur en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.


Tengdar fréttir

Fáni stuðningsmanna Palace til rannsóknar

Enska knattspyrnusambandið hefur tekið framferði stuðningsmanna Crystal Palace til athugunar eftir leik Palace og Nottingham Forest í dag en risastór fáni sem gerði rætið grín að Evangelos Marinakis, eiganda Forest, vakti mikla athygli í stúkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×