Lífið

Woody Allen segist enginn að­dáandi Pútíns

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Woody Allen kemur fram á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Moskvu.
Woody Allen kemur fram á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Moskvu. Getty

Leikstjórinn Woody Allen hafnar ásökunum á hendur sér um hvítþvott á stríðsglæpum Rússa vegna þátttöku hans í alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Moskvu sem stendur yfir. Úkraínska utanríkisráðuneytið gaf frá sér harðorða yfirlýsingu í kjölfar þess að tilkynnt var um þátttöku hans á hátíðinni.

Woody Allen er orðinn 89 ára gamall en hefur ekki átt upp á dekk síðastliðin ár þrátt fyrir rúmlega sextíu ár af kvikmyndagerð á bakinu. Í kjölfar #MeToo-bylgjunnar sem hófst árið 2017 rifjaði Dylan Farrow, dóttir Allen og Miu Farrow, upp ásakanir í garð Allen um að hann hefði misnotað hana kynferðislega þegar hún var barn.

Greint var frá því að hann tæki þátt í alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Moskvu í síðustu viku og þá kom fram að hann myndi taka þátt í svokölluðum fyrirlestrarfundi sem rússneski kvikmyndagerðarmaðurinn Fjodor Bondartsjúk færi fyrir.

Í kjölfar tilkynningarinnar birti utanríkisráðuneyti Úkraínu harðorða yfirlýsingu.

„Þetta er smán og móðgun við fórnir úkraínskra leikara og kvikmyndagerðarmanna sem hafa verið drepnir eða særðir af rússneskum stríðsglæpamönnum í stríði þeirra gegn Úkraínu,“ segir þar meðal annars.

Woody Allen lítur hins vegar ekki svo á málið. Hann segist ekki vera neinn aðdáandi Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og heldur ekki innrásar hans í Úkraínu.

„En, sama hvað stjórnmálamenn hafa gert, sé ég ekki hvernig það að skera á samskiptalínur listamanna geti hjálpað,“ sagði hann við Guardian inntur eftir viðbrögðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.