Körfubolti

Luka skaut Ís­rael í kaf

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luka íhugar hvernig hann ætti að skora að þessu sinni.
Luka íhugar hvernig hann ætti að skora að þessu sinni. EPA/Lukasz Gagulski

Stórstjarnan Luka Dončić sýndi heldur betur hver með valdið fer þegar Slóvenía lagði Ísrael með tíu stiga mun í D-riðli Evrópumóts karla í körfubolta. Sigurinn þýðir að Slóvenía hirðir 2. sætið af Ísrael.

Hinn 26 ára gamli Luka var nokkuð rólegur á eigin mælikvarða þegar Slóvenía lagði Ísland í 4. umferð riðlakeppninnar. Í lokaumferðinni var hins vegar boðið upp á sýningu, lokatölur 106-96 þökk sé ótrúlegri frammistöðu Luka. Stórstjarnan skoraði 37 stig, tók 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

Í hinum leikjum D-riðils þá vann Frakkland einkar þægilegan sigur á Íslandi og Belgía vann Pólland með einu stigi, lokatölur 70-69. Frakkland vinnur þar með D-riðil og fer örugglega inn í 16-liða úrslitin. Slóvenía, Ísrael og Pólland fylgja Frakklandi þangað á meðan Ísland og Belgía hafa lokið leik.

Í C-riðli vann Bosnía og Hersegóvína átta stiga sigur á Georgíu, lokatölur 84-76. Ítalía fór illa með Kýpur, 89-54. Grikkland vann nauman sigur á Spáni, 90-86, og eru Spánverjar þar með úr leik. Grikkland, Ítalía, Bosnía og Hersegóvína og Georgía eru komin áfram í 16-liða úrslit. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×