Sport

Rekinn af velli eftir að­eins sex sekúndur af NFL tíma­bilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jalen Carter hrækir á Dak Prescott þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af leiknum.
Jalen Carter hrækir á Dak Prescott þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af leiknum. X

NFL-tímabilið hófst í nótt þegar NFL-meistarar Philadelphia Eagles unnu 24-20 sigur á Dallas Cowboys. Leikurinn byrjaði þó skelfilega fyrir meistarana.

Eagles missti nefnilega einn sinn besta varnarmann af velli eftir aðeins sex sekúndna leik.

Eagles hafði þá sparkað frá sér boltanum og leikmenn Dallas Cowboys voru að undirbúa sig fyrir að hefja fyrstu sókn tímabilsins.

Jalen Carter er frábær varnarmaður og einn sá besti í sinni stöðu í NFL deildinni en hann missti algjörlega hausinn í einhverjum sálfræðileik.

Hann gekk upp að þyrpingu Dallas manna og að leikstjórnandanum Dak Prescott. Þegar þeir stóðu á móti hvorum öðrum þá féllu nokkur orð en svo tók Carter allt í einu upp á því að hrækja á Prescott.

Því miður fyrir Carter þá stóð dómari við hlið þeirra og sá hrákuna vel. Hann var fljótur að henda upp gula flagginu.

Dómararnir töluðu síðan saman og tilkynntu að Carter væri fyrir þetta útilokaður frá leiknum.

Þarna voru aðeins sex sekúndur liðnar af leiknum. Á þessum sex sekúndum hafði Eagles leikmaðurinn Ben VanSumeren einnig meitt sig illa þannig að hann var keyrður af velli á hnjaskvagninum.

Dallas liðið skoraði strax í fyrstu sókn sinni en Eagles svaraði strax.

Eagles var einu stigi yfir í hálfleik, 21-20, eftir mjög fjörugan fyrri hálfleik en það var síðan bara skorað eitt vallarmark í seinni hálfleiknum. Eagles menn skoruðu það og unnu 24-20 en gera þurfti 65 mínútna hlé á leiknum í seinni hálfleik vegna eldingahættu.

Leikurinn var stöðvaður þegar 4:44 mínútur voru eftir af þriðja og staðan var 24-20. Ekkert var skorað eftir að leikurinn hófst á ný.

Leikstjórnandinn Jalen Hurts skoraði tvö snertimörk fyrir Eagles og Saquon Barkley eitt.

Hlauparinn Javonte Williams skoraði tvö snertimörk fyrir Dallas og sparkarinn Brandon Aubrey skoraði tvö snertimörk.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×