Innlent

Kjölur ekki á dag­skrá

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdarstjóri þróunargerðs Vegargerðarinar.
Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdarstjóri þróunargerðs Vegargerðarinar. Vísir/Lýður Valberg

Vegabætur á Kili eru ekki á áætlun þrátt fyrir að teikningar hafi verið til í nokkur ár. Vegagerðin segir málið snúast um forgangsröðun. Allt að fimm hundruð bílum er ekið daglega yfir Kjöl þegar mest er.

Vegurinn yfir Kjöl hefur reynst ferðalöngum erfiður í sumar þar sem djúpar holur hafa víða myndast. Vegurinn, sem liggur yfir miðhálendið um Kjöl frá Gullfossvegi í suðri að Svínvetningabraut í Blöndudal í norðri, er að stærstum hluta niðurgrafinn ýtuslóð.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Kerlingarfjöllum síðustu ár sem dregur að sér gesti og kalla þeir sem sinna ferðaþjónustu á svæðinu eftir úrbótum á veginum. Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa fundið fyrir auknu álagi á veginn.

„Ég held að umferðin þarna fyrir ofan Gullfoss er á sumrin fjögur fimm hundruð bílar að jafnaði á dag sem er allt of mikið fyrir lélegan malarveg og þess vegna þurfum við að hafa hann betri. Þannig að umferðin hefur vaxið þarna,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.

Hann segir Vegagerðina hafa teiknað úrbætur fyrir fimm árum sem fela meðal annars í sér að veginum verði lyft upp og að hann verði með bundnu slitlagi frá Gullfossi að Kerlingarfjöllum. Slíkar framkvæmdir séu hins vegar ekki á áætlun eins og staðan sé nú.

„Við allavega höfum lagt okkar plön í sjálfu sér og svo er þetta spurning um forgangsröðunina. Eins og þetta var sett fram fyrir fimm árum síðan var þetta verkefni upp á einn og hálfan milljarð þessi kafli upp eftir en það er í höndum fjárveitingavaldsins og forgangsröðun á samgöngum sem veltur á því hvenær þetta getur orðið. Ætlum við að forgangsraða þessu uppbyggingu hálendisveganna versus einbreiðra brúa eða malarvegi í þéttbýli og svo framvegis. Það er bara alls staðar áskorun um það. Ég held að það sé umræða sem sé þörf á taka hvar er krónan nýtt best.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×