Körfubolti

Sengün stór­kost­legur þegar Tyrkir komust í átta liða úr­slit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alperen Sengün héldu engin bönd gegn Svíþjóð.
Alperen Sengün héldu engin bönd gegn Svíþjóð. epa/TOMS KALNINS

Þrátt fyrir góða baráttu Svía unnu Tyrkir leik liðanna í sextán liða úrslitum á EM í körfubolta karla í dag, 85-79. Tyrkneska liðið er það fyrsta sem tryggir sér sæti í átta liða úrslitum mótsins.

Svíþjóð var fimm stigum yfir í hálfleik, 37-42, en Tyrkland var mun sterkara í 3. leikhluta. Tyrkir unnu hann með helmingsmun, 26-13, og leiddu með átta stigum fyrir lokaleikhlutann, 63-55.

Svíar jöfnuðu í 69-69 og svo aftur í 76-76 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Tyrkir skoruðu næstu sex stig og komu sér í góða stöðu, 82-76.

Sænska liðið gafst ekki upp og Viktor Gaddefors hleypti spennu í leikinn með því að skora þrjú stig í röð, 82-79. En Tyrkland kláraði leikinn á vítalínunni og tryggði sér sex stiga sigur, 85-79.

Alperen Sengün, leikmaður Houston Rockets í NBA-deildinni, átti frábæran leik fyrir Tyrkland í dag. Hann skoraði 26 stig, tók sextán fráköst og gaf sex stoðsendingar. Cedi Osman skoraði sautján stig og Ercan Osmani fjórtán auk þess að taka níu fráköst. Tyrkland vann frákastabaráttuna, 45-33.

Ludvig Håkansson var stigahæstur Svía með sextán stig. Pelle Larsson og Viktor Gadderfors skoruðu fimmtán stig hvor.

Í átta liða úrslitunum mætir Tyrkland sigurvegaranum úr leik Pólland og Bosníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×