Körfubolti

Unnu lokaleikhlutann með 26 stigum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Franz Wagner fagnar eftir sigur Þýskalands á Portúgals. Hann skoraði sextán stig í leiknum.
Franz Wagner fagnar eftir sigur Þýskalands á Portúgals. Hann skoraði sextán stig í leiknum. epa/VALDA KALNINA

Eftir þrjá jafna leikhluta rúllaði Þýskaland yfir Portúgal í fjórða og síðasta leikhlutanum þegar liðin áttust við í sextán liða úrslitum á EM í körfubolta karla í dag. Þjóðverjar unnu 4. leikhlutann, 33-7, og leikinn, 85-58.

Fyrir lokaleikhlutann munaði aðeins einu stigi á liðunum, 52-51, og allt opið. En þá skelltu þýsku heimsmeistararnir í lás. Portúgalir skoruðu aðeins sjö stig á síðustu tíu mínútunum á meðan Þjóðverjar skoruðu 33 stig.

Dennis Schröder og Franz Wagner skoruðu sextán stig hvor fyrir Þýskaland og Isaac Bonga fimmtán stig.

Þjóðverjar skoruðu tuttugu stig eftir hraðaupphlaup í leiknum í dag en Portúgalir ekki neitt. Þýska liðið gerði sömuleiðis tuttugu stig eftir tapaða bolta hjá því portúgalska.

Neemias Queta skoraði átján stig fyrir Portúgal og var eini leikmaður liðsins sem skoraði meira en átta stig í leiknum.

Í átta liða úrslitunum mætir Þýskaland annað hvort Ítalíu eða Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×