Enski boltinn

Liverpool hyggst fá Guéhi frítt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Marc Guéhi komst ekki til Liverpool í lok félagsskiptagluggans en liðið vill fá hann frítt að ári.
Marc Guéhi komst ekki til Liverpool í lok félagsskiptagluggans en liðið vill fá hann frítt að ári. Vísir/Getty/Julian Finney

Liverpool stefnir ekki á að leggja fram kauptilboð í Marc Guéhi, fyrirliða Crystal Palace, í janúar. Þó standi til að fá leikmanninn til Bítlaborgarinnar.

Guéhi var orðaður við Liverpool í allt sumar og þótti tímaspursmál hvenær skipti hans myndu ganga í gegn. Crystal Palace hafði veitt liðinu leyfi til að ræða við fyrirliðann undir lok félagsskiptagluggans og virtist allt klappað og klárt fyrir 35 milljón punda skipti.

Þá var tekin U-beygja í Lundúnum og eftir sat Guéhi hjá Palace vegna kröfu Olviers Glasner, þjálfara Palace, að sleppa honum ekki. Liverpool hefur verið sagt áhugasamt um að reyna aftur við Guéhi í janúar og fá hann á tombóluprís þar sem samningur hans við Lundúnaliðið rennur út næsta sumar.

Samkvæmt The Telegraph er svo ekki. Liverpool klári tímabilið með núverandi varnarlínu án viðbóta og hyggist fremur semja við Guéhi næsta sumar og fá hann þar af leiðandi frítt.

Önnur félög munu eflaust veita Liverpool baráttu um undirskrift Guéhi, hvort sem er í janúar eða næsta sumar.

Liverpool er sagt sannfært um það að Guéhi sjái framtíð sína fyrir sér í Liverpool-borg og einfalt verði að ganga frá kaupi og kjörum, enda hafði varnarmaðurinn þegar náð samkomulagi um laun við kappann í lok ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×