Íslenski boltinn

„Þá gætum við lagst niður og gefist upp“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Halldór Árnason reynir að koma skilaboðum áleiðis til sinna manna.
Halldór Árnason reynir að koma skilaboðum áleiðis til sinna manna. Vísir/Diego

Breiðablik hefur nú tapað báðum leikjum sínum gegn ÍA sem situr á botni deildarinnar í sumar. Liðið er einnig án sigurs í síðustu fimm leikjum í deildinni og ljóst að Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, þarf að finna lausnir á ógöngu liðsins.

„Það er áhyggjuefni að megnið af okkar stigum er á móti liðunum sem eru fyrir ofan okkur. Stigasöfnun gegn liðunum fyrir neðan okkur hefur því miður ekki verið nógu góð,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir tap liðsins í kvöld.

Breiðablik situr sem stendur í fjórða sæti með 33 stig og er næsti leikur liðsins gegn ÍBV áður en deildinni er skipt niður.

„Það eru sex leikir eftir og innbyrðis leikir strax gegn toppliðunum í næstu umferð og svo eingöngu innbyrðis leikir í úrslitakeppninni. Við horfum alls ekki á þetta þannig að evrópusæti sé í hættu, þá gætum við bara lagst niður og gefist upp. Við ætlum að halda áfram og reyna við sigur á mánudaginn.“

„Ef ég væri með svörin og lausnirnar núna, þá gæfi ég mikið fyrir það. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað andlegt sem vantar upp á í þessa leiki. Frammistöðurnar gegn toppliðunum hafa verið mjög góðar og stigasöfnunin mjög góð. Hvort það sé taktískt eða andlegt sem við þurfum virkilega að bæta. En við þurfum að rýna í það núna.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×