Sport

Segist græða jafn mikið á einum Stera­leikum og þrettán heims­meistaramótum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ben Proud vonast til að verða loðinn um lófana af þátttöku sinni á Steraleikunum.
Ben Proud vonast til að verða loðinn um lófana af þátttöku sinni á Steraleikunum. getty/Ian MacNicol

Enski sundkappinn Ben Proud segir að fjárhagslegar ástæður spili inn í þá ákvörðun hans að keppa á Steraleikunum.

Proud er heims- og Evrópumeistari í fimmtíu metra skriðsundi og vann til silfurverðlauna í greininni á Ólympíuleikunum í París í fyrra.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Proud væri fyrsti breski íþróttamaðurinn sem hefði ákveðið að keppa á Steraleikunum. Þar er keppendum heimilt að taka inn lyf sem eru á bannlista Alþjóðlega lyfjaeftirlitsins, Wada.

Verðlaunaféð á Steraleikunum er umtalsvert meira en á hefðbundnum mótum og Proud segir það hafi hvatt hann til að breyta til.

„Ég er þrítugur og hef verið að hugsa um að hætta í nokkur ár. Við íþróttamenn á Ólympíuleikum þénum ekki nógu mikið til að geta hætt og lifað á því og þess vegna er ég alltaf að leita að einhverju sem getur enst mér lengur,“ sagði Proud.

Á HM í sundi 2022 var heildarverðlaunaféð 2,73 milljónir punda. Á Steraleikunum fá keppendur greitt fyrir að taka þátt og Proud fær milljón punda í sinn hlut ef hann slær heimsmetið í fimmtíu metra skriðsundi.

„Það myndi taka mig þrettán heimsmeistaratitla til að græða jafn mikið og ég fæ fyrir að vinna eina keppni á þessum leikum,“ sagði Proud.

Hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ákvörðun sína að taka þátt á Steraleikunum, meðal annars af breska sundsambandinu.

Verið að hafa vit fyrir okkur

Steraleikarnir eru afar umdeildir en varað hefur verið við heilsufarsvandamálum sem gætu verið fylgifiskur notkunar ólöglegra efna. Frjálsíþróttalýsandinn Sigurbjörn Árni Arngrímsson tekur undir þær áhyggjur en hann ræddi um Steraleikana í Bítinu á Bylgjunni.

„Ástæðan fyrir því að dóp er almennt bannað er ekki bara að það bæti getuna heldur er líka verið að hafa vit fyrir mönnum. Lífeðlisfræðilegar og læknisfræðilegar rannsóknir sýna fram á það að steranotkun eykur til dæmis talsvert líkurnar á að þú deyir úr hjartaáfalli,“ sagði Sigurbjörn.

„Þetta er bara eins og með öryggisbelti. Það er einhver sem ákveður það að fólk verði að vera með öryggisbelti og það er verið að hafa vit fyrir okkur til þess að ef við lendum í slysi séu minni líkur á að við deyjum. Þetta er eins með lyfin. Það er verið að passa að þú skaðir þig ekki.“

Fyrstu Steraleikarnir eiga að fara fram í Las Vegas 21.-24. maí á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×