Innlent

Karl­maður á fer­tugs­aldri fannst látinn í Hafnar­firði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tilkynning barst Neyðarlínunni klukkan 12:18 í dag.
Tilkynning barst Neyðarlínunni klukkan 12:18 í dag. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fertugsaldri fannst látinn á opnu svæði suður af götunni Lyngbarði í Hafnarfirði upp úr hádegi í dag. Ekki er grunur um saknæmt athæfi.

Íbúar í hverfinu tóku eftir lögreglu og sjúkrabílum í hverfinu og var til umræðu í íbúahópi hverfisins. Skúli Jónsson, yfirlögreglujónn í Hafnarfirði, segir tilkynning hafa borist frá gangandi vegfaranda klukkan 12:18.

Tilkynningin hafi verið um meðvitundarlausan karlmann á grúfu. Þegar lögregla og sjúkralið kom á vettvang var ljóst að maðurinn var látinn og hafði verið í einhvern tíma.

Samkvæmt hefðbundnu verklagi fer málið á borð rannsóknardeildar miðlægrar deildar lögreglu. Búið er að bera kennsla á manninn sem var á 36. aldursári og bjó í hverfinu.

Skúli segir engan grun um saknæmt athæfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×