Erlent

Trump og Selenskí funda á ný

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þetta yrði þriðji fundur forsetanna sem hittust síðan þann 18. ágúst.
Þetta yrði þriðji fundur forsetanna sem hittust síðan þann 18. ágúst. EPA

Forseti Úkraínu og forseti Bandaríkjanna koma til með að funda á ný í næstu viku á þingi Sameinuðu þjóðanna. Úkraínuforseti segist ætla ræða viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gagnvart Rússum.

Þetta verður þriðji fundur forsetanna tveggja frá því að kjörtímabil Donalds Trump Bandaríkjaforseta hófst í janúar. Fundurinn mun eiga sér stað á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York í næstu viku.

Á fundi með blaðamönnum sagðist Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti ætla að hvetja Trump til að beita Rússa viðskiptaþvingunum. Hann sagðist þá búast við að Rússar yrðu beittir frekari viðskiptaþvingunum skyldi Vladimír Pútín Rússlandsforseti halda áfram að neita beiðni Selenskí um fund, augnliti til augnlitis, þar sem hægt væri að ræða vopnahlé.

Í umfjöllun The Guardian kemur fram að Trump hefur ítrekað hótað því að beita Rússum viðskiptaþvingunum, en aldrei staðið við hótanirnar eða sett einhvers konar skilmála fyrir þeim. Í síðustu viku sagði Bandaríkjaforsetinn að hann myndi beita þvingununum ef að öll aðildarríki í Atlantshafsbandalaginu myndu hætta að kaupa olíu af Rússum og myndu setja tolla á innfluttar vörur frá Kína. Einu löndin í Evrópu sem enn kaupa olíu af Rússum eru Ungverjaland og Slóvakía.

„Trump forseti býst við sterkum viðbrögðum frá Evrópu. Ég held að við séum að eyða miklum tíma ef viðskiptaþvinganir verða svo eki settar á eða engin skref verða tekin,“ segir Selenskí.

Selenskí vill einnig ræða við Trump um hvaða öryggisráðstafanir Bandaríkjamenn geti veitt þeim í friðarviðræðum.

Olena Selenskí, eiginkona Úkraínuforsetans, verður „líklegast“ með honum í för og kemur til með að funda með Melania Trump, eiginkonu Bandaríkjaforseta. Þeirra fundur mun snúast um hvernig sækja eigi úkraínsku börnin sem að Rússar hafa rænt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×