Innlent

Netárásin gæti haft á­hrif á ferðir Icelandair

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Einhverjar tafir gætu orðið á flugferðum Icelandair.
Einhverjar tafir gætu orðið á flugferðum Icelandair. Vísir/Vilhelm

Netárás á erlent innritunarkerfi gæti komið til með hafa áhrif á flugferðir Icelandair. Forstöðumaður samskipta segir að allir ferðalangar verða látnir vita verði breytingar á ferðum þeirra.

„Þetta hefur áhrif á fjóra flugvelli í leiðakerfinu okkar,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Icelandair.

Umræddir flugvellir eru Heathrow-flugvöllurinn í London, og svo flugvellirnir í Berlín, Dublin og Brussel. Árásin átti sér stað í gærkvöldi gegn fyrirtækin Collins Aerospace sem sér um kerfi fyrir innritun á flugvöllunum. Því þurfi að innrita alla handvirkt í flugin sem geti skapað tafir.

Ásdís Ýr segist vera fylgjast með framgangi málanna.

„Við munum láta alla farþega vita ef það verða einhverjar breytingar,“ segir hún.

Af umræddum flugvöllum býður Play upp á flug til Dublin. Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir netárásirnar ekki hafa haft nein áhrif á flugferðir á þeirra vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×