Íslenski boltinn

„Heldur þessi veisla ekki bara á­fram?“

Ólafur Þór Jónsson skrifar
Hermann Hreiðarsson gæti stýrt liði upp úr Lengjudeildinni annað árið í röð, eftir að hafa komið ÍBV upp í fyrra.
Hermann Hreiðarsson gæti stýrt liði upp úr Lengjudeildinni annað árið í röð, eftir að hafa komið ÍBV upp í fyrra. vísir/Lýður

Hermann Hreiðarsson þjálfari HK var að vonum ánægður eftir 2-3 sigur á Þrótti í seinni leik liðanna í úrslitakeppni Lengjudeildar sem fór fram í dag. HK vann fyrri leikinn 4-3 og því um algjöra markaveislu að ræða. Hermann viðurkenndi að hann væri í skýjunum með sigurinn.

„Ég er fyrst og fremst stoltur af liðinu. Við erum búnir að vera í fullt af úrslitaleikjum upp á síðkastið. Vitum að við höfum þurft að hafa fyrir þessu einvígi gegn Þrótti en við erum búnir að vinna þessa leiki. Það er ógnarkarakter og hungur í okkur. Við erum komnir á Laugardalsvöll, það er skref númer 2 en núna er risa leikur framundan.“

„Mikill vilji í þessu liði. Við vorum búnir að ógna þeim mikið í hornum í síðustu tveimur leikjum gegn þeim en ekki búnir að skora. Það kom í dag og það var fallegt.“

Framundan er hreinn úrslitaleikur um sæti í Bestu deildinni á næstu leiktíð gegn Keflavík.

„Við erum ógnarspenntir. Þetta er búið að vera markmiðið í svolítinn tíma, síðan möguleikinn á fyrsta sætinu var tekinn af okkur. Við höfum haft það að markmiði síðan að einbeita á sjálfa okkur og hvernig við spilum. Þegar við erum á okkar degi ráða fá lið við okkur.“

Hermanni leist vel á andstæðingana Keflavík og sagðist vonast eftir áframhaldi af einvíginu gegn Þrótti

„Heldur þetta ekki bara áfram þessi veisla? Þeir eru með reynslumikið og hörku lið. Þeir hafa sýnt það upp á síðkastið. Það var ástæða fyrir að þeim var spáð svona ofarlega. Þetta er ástæðan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×