Innlent

20 börn frá Græn­landi í sundi, skautum og í heim­sókn hjá for­setanum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Íslensku krakkarnir voru strax spennt þegar þau sáu krakkana frá Grænlandi og fóru að tala við þau og skauta með þeim.
Íslensku krakkarnir voru strax spennt þegar þau sáu krakkana frá Grænlandi og fóru að tala við þau og skauta með þeim. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hópur barna frá afskekktum þorpum á austurströnd Grænlands eru nú stödd hér á landi þar sem þau læra sund, fá að fara á skauta og þau heimsækja forseta Íslands á Bessastaði svo eitthvað sé nefnt. Um er að ræða samstarf vinafélags Íslands og Grænlands, sem heitir KALAK.

Grænlensku krakkarnir, sem eru 20 talsins og eru 13 ára, eru með kennara frá heimalandi sínu með sér en þau stoppa á Íslandi í hálfan mánuð þar sem þau fá að kynnast menningu landsins, fara í allskonar heimsóknir og sækja kennslustundir í einum af grunnskólum Kópavogs. Hápunktur helgarinnar var að komast á skauta í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík. Samstarfið í KALAK, vinafélaginu hefur gengið mjög vel.

„Þetta er búið að ganga núna í 19 ár og er bara mjög skemmtilegt verkefni og það er svo margt skemmtilegt í þessu, sem við sáum ekki fyrir þegar við vorum að bjóða börnunum fyrst að koma. Til dæmis þegar börnin koma þá þekkjast þau ekki innbyrðis, þau eru frá sex þorpum,” segir Stefán Þór Herbertsson, tengiliður Íslands í samstarfinu.

En við hvaða aðstæður búa börnin?

„Það er eiginlega versta félagslaga ástandið á Grænland, sem er í þessum þorpum. Það er margt gott þarna en svo eru líka félagsleg vandamál þarna, sem þau eiga mjög erfitt með,” segir Stefán.

Stefán Þór Herbertsson, sem er aðal tengiliður Íslands í samstarfinu í KALAK verkefninu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það var ekki að sjá í Skautahöllinni að krökkunum liði illa eða þess háttar, þau nutu þess að fara um svellið með grindur fyrir framan sig og íslenskir krakkar voru fljót að byrja að spjalla við þau.

„Ég er að fara með þau í heimsóknir alveg á ótrúlegustu staði. Við förum til forsetans, við förum á Gullfoss og Geysi, FlyOver Iceland höfum við farið á, þetta er alveg mjög skemmtilegt”, bætir Stefán við.

Sjálfur bjó Stefán í nokkur ár í Grænlandi en er eitthvað líkt með Grænlandi og Íslandi?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Menningarmunurinn er svo ótrúlega mikill. Það var ekki fyrr en ég kom þarna til Grænlands að ég skyldi hvað menningarmunur er,” segir Stefán Þór.

Krökkunum frá Grænlandi fannst mjög gaman að fara á skauta.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heimasíða KALAK




Fleiri fréttir

Sjá meira


×