Skoðun

Haf­rannsókna­stofnun leggur til 95 pró­sent sam­drátt í sjókvía­eldi á laxi

Jón Kaldal skrifar

Í drögum Hafrannsóknastofnunar að nýju áhættumati erfðablöndunar koma fram þrjár gerólíkar sviðsmyndir um hver þróunin verður í sjókvíaeldi á laxi við Ísland á næstu árum. Þar á meðal ein sem markar endalok áætlana um að opið sjókvíaeldi af iðnaðarskala verði leyft við landið.

Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum teljum einsýnt að sú leið hljóti að verða niðurstaðan nema yfirvöld taki meðvitaða ákvörðun um að skauta framhjá því sem hefur gengið á undanfarin ár og staðfest hefur verið með rannsóknum.

Áhættumatið ræður þróuninni

Áhættumat erfðablöndunar stýrir hversu umfangsmikið sjókvíaeldi á laxi getur verið við Ísland án þess að skaða villta laxastofninn okkar. Það er útaf fyrir sig afar umdeild hugmynd Hafrannsóknastofnunar en er ekki efni þessarar greinar.

Núverandi þak gerir ráð fyrir að 106.500 tonn af eldislaxi geti verið í sjókvíum við landið. Það er ígildi um 55 milljóna laxa. Til samanburðar telur íslenski villti stofninn um 70.000 fiska, eða 0,1 prósent af þeim fjölda eldislaxa.

Sjókvíaeldisfyrirtækin eru nú með í kvíum sínum um helming af leyfilegum 106.500 tonnunum og stefna að því að fullnýta leyfin eins fljótt og þau geta.

Hafrannsóknastofnun skal samkvæmt lögum endurskoða áhættumatið á þriggja ára fresti og fyrr ef ástæða er til. Þetta mat er því algjört lykiltæki um hver þróunin verður í þessum mengandi iðnaði.

Þrjár sviðsmyndir

Þetta eru sviðsmyndirnar þrjá í drögunum að nýja matinu (sjá einnig mynd sem hér fylgir):

Þrjár sviðsmyndir úr nýjum drögum að áhættumati erfðablöndunar. Án mótvægisaðgerða má magn eldislaxaí sjókvíum ekki vera meira en 5.900 tonn.Hafrannsóknastofnun Íslands

1) 106.500 tonn (ígildi um 55 milljóna eldislaxa í kvíum)

Þetta er óbreytt magn sem miðast við það sem stofnunin kallar „virkar mótvægisaðgerðir“. Þær snúast um tvennt: A) Mótvægisaðgerðir sem eiga að koma í veg fyrir að eldislaxinn verði kynþroska í sjókvíunum þannig að hann leiti síður upp í ár þegar hann sleppur og B) Mótvægisaðgerðir í ám sem felast í að hreinsa burt eldislax sem gengur í þær til að takmarka möguleika þeirra á að taka þátt í hrygningu með villtum laxi.

2) 50.000 tonn (ígildi um 25 milljóna eldislaxa í kvíum)

Þetta er magnið ef engar virkar mótvægisaðgerðir eru í ám.

3) 5.900 tonn (ígildi um 3 milljóna eldislaxa í kvíum)

Þetta er magnið ef bæði er óvirkt: mótvægi við kynþroska og mótvægi í ám.

Af þessum forsendum gefnum má strax slá af möguleikann á 106.500 tonnum. Augljóst er að bændur og aðrir eigendur lögbýla þar sem um renna ár með laxi munu ekki taka í mál að lögfestar verði mótvægisaðgerðir til að greiða fyrir starfsemi sjókvíaeldisfyrirtækjanna. Fráleitt er að gera ráð fyrir að slíkt hreinsunarstarf verði árlegur viðburður því þetta eru gríðarlega ágengar aðgerðir. Dregið er á með netum eða kafarar fara um með spjótbyssur í leit að eldislöxum. Öll þessi umferð hefur í för með sér mikla truflun á lífríki ánna og skaðar þar að auki með óafturkræfum hættu ásýnd vatnsfallanna.

Við þetta bætist svo kjarni málsins: Óraunhæft er að ná nema hluta af eldislöxum sem hafa sloppið. Að hreinsa ár ef eldislaxi er neyðaraðgerð sem er aðeins möguleg í ám sem eru ekki vatnsmiklar. Eldislaxar ganga langt fram á haust þegar viðveru stangveiðifólks við árnar er lokið og eldislaxar geta verið án útlitseinkenna og því ekki hægt að tryggja að þeir verði fjarlægðir.

Veruleikinn annar í raun

Eru 50.000 tonn af eldislaxi í sjókvíum við landið þá raunhæfur möguleiki? Nei, í fyrsta lagi vegna þess að rannsóknir sýna að hinar meintu mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir kynþroska í sjókvíunum hafa alls ekki gengið. Þannig var samkvæmt okkar heimildum mjög hátt hlutfall eldislaxa kynþroska í sjókvíum Háafells í Ísafjarðardjúpi í sumar þrátt fyrir að fyrirtækið hafi farið eftir reglugerð um ljósastýringu sem átti samkvæmt fræðum Hafrannsóknastofnunar að koma í veg fyrir að það gæti gerst. (Ljósastýring er stöðug lýsing - eilíft sumar - í sjókvíunum yfir skammdegið sem ruglar eðlilegan þroska laxanna.)

Þar með er þessi hluti mótvægisaðgerðinna fallinn.

Er þetta ekki í fyrsta skipti sem raunveruleikinn er annar en stuðningsmenn sjókvíaeldis innan stofnunarinnar hafa reiknað með.

Í öðru lagi hefur Hafrannsóknastofnun engar áþreifanlegar rannsóknir sem staðfesta að ókynþroska eldislax verði ekki kynþroska í náttúrunni þegar hann sleppur úr sjókví. Þvert á móti eru sérfræðingar utan stofnunarinnar sammála um að það muni einmitt gerast.

Samandregið: Þær mótvægisaðgerðir sem Hafrannsóknastofnun nefnir eru annað hvort ekki inni í myndinni (í ánum) eða hafa reynst byggðar á aðferðarfræði sem virka illa eða ekki.

Niðurstaðan hlýtur þá að vera að magn eldislaxaí sjókvíum má ekki vera meira en 5.900 tonn, eða 95% samdráttur frá 106.500 tonna þakinu.

Aðrar alvarlegar gloppur

Rétt er að færa til bókar að þau atriði sem hafa verið rakin hér að ofan byggja eingöngu á rýni á drögum áhættumatsins á þess eigin forsendum. Ýmsar alvarlegar gloppur eru hins vegar á þeim forsendum sem stofnun gefur sér.

Á það benti meðal annars vinnunefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í úttekt sinni síðastliðinn vetur og lagði til að Hafrannsóknastofnun myndi efna til nýrrar vinnustofu um þá stuðla sem áhættumatið byggir á.

Að Hafrannsóknastofnun hafi kosið að fara ekki eftir þeirri ráðgjöf er stórfurðulegt og því miður aðeins til að ala á vantrausti í garð stofnunarinnar.

Höfundur er talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins.




Skoðun

Sjá meira


×