Enski boltinn

Barcelona vill fá Ras­h­ford á tom­bólu­verði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kann vel við sig í Katalóníu.
Kann vel við sig í Katalóníu. Koji Watanabe/Getty Images

Enski framherjinn Marcus Rashford hefur farið ágætlega af stað með Spánarmeisturum Barcelona. Hann er þar á láni frá Manchester United og hefur spænska félagið forkaupsrétt á leikmanninum næsta sumar. Það vonast til að fá hann á enn lægra verði en upphaflega samið var um.

Rashford, sem verður 28 ára í október, var á láni hjá Aston Villa á síðari hluta síðasta tímabils. Þar stóð hann sig nægilega vel til að Villa vildi kaupa hann en það gekk ekki eftir vegna fjárhagsvandræða félagsins sem og að Rashford sjálfur var ákveðinn í að ganga til liðs við spænska stórveldið.

Talað var um að Aston Villa hefði getað keypt leikmanninn á 40-45 milljónir punda en nú virðist sem Barcelona stefni á að fá Rashford í sínar raðir fyrir töluvert lægri upphæð. ESPN greinir frá að Barcelona geti keypt hann frá Man United á 35 milljónir punda eða 5,7 milljarða íslenskra króna.

Þar sem Börsungar vita að Man United vill losna við Rashford af launaskrá og að sama skapi ekki missa hann frítt eru þeir tilbúnir að borga 26 milljónir punda eða 4,2 milljarða íslenskra króna.

Jafnframt herma heimildir ESPN að Rashford vilji hvergi annars staðar vera en í Katalóníu. Hann er samningsbundinn Man Utd til sumarsins 2028 og því spurning hvað gerist næsta sumar, ef til vill tekur United sénsinn og reynir að selja hann til hæstbjóðandi. Miðað við hvernig félaginu hefur gengið að selja leikmenn undanfarin ár eru þó engar líkur á því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×