Íslenski boltinn

Hvergi nærri hætt: „Markmiðið var alltaf að sýna gömlu góðu Berglindi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir veit sannarlega hvar markið er.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir veit sannarlega hvar markið er. Vísir/Sigurjón

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kveðst hvergi nærri hætt en hún er langmarkahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna og varð um helgina markahæst í sögu Breiðabliks. Hún bankar hressilega á dyrnar hjá landsliðinu með framgöngu sinni í sumar.

Berglind Björg fór mikinn í síðustu umferð Bestu deildar kvenna fyrir skiptingu er Breiðablik vann 9-2 sigur á Þór/KA um helgina. Hún skoraði heil fimm mörk og er þar með orðin markahæsta kona í sögu Breiðabliks og tók þar með fram úr Ástu B. Gunnlaugsdóttur, sem skoraði á sínum tíma 195 mörk en Berglind hefur með sínum fimm um helgina, nú skorað 198 mörk.

„Ég er bara virkilega stolt af þessu og meyr yfir að hafa slegið þetta met. Ég heyrði í kallkerfinu þegar ég skoraði að ég væri búin að bæta metið hennar. Tilfinningar út um allt,“ segir Berglind.

Berglind Björg er langmarkahæst í deildinni með 20 mörk, fimm mörkum á undan liðsfélaga sínum Birtu Georgsdóttur. Næstu konur þar á eftir hafa skorað tíu. Henni hefur því svo sannarlega gengið vel að finna netmöskvana í sumar.

„Ég sá það alls ekki fyrir. Ég held ég hafi aldrei farið í 20 mörk. Ég er mjög ánægð með þetta og þakklát liðsfélögum mínum að mata mig,“ segir Berglind sem var ákveðin í að gera vel með Blikaliðinu eftir vonbrigðatímabil með Val í fyrra en Hlíðarendafélagið leysti hana undan samningi í kjölfarið.

„Klárlega. Markmiðið var alltaf að koma til baka og sýna gömlu góðu Berglindi. Að ég gæti þetta ennþá, sem ég get klárlega. Ég er hvergi nærri hætt,“ segir hún.

Ekki heyrt frá Þorsteini

Berglind er lang markahæst í deildinni, fimm mörkum á undan næstu konu. Hún á 72 landsleiki að baki en hefur verið utan hópsins í rúm tvö og hálft ár. En gerir hún tilkall til landsliðssætis með frammistöðu sumarsins?

„Það væri algjör bónus. Það eina sem ég get gert er að sýna inni á vellinum að ég geti þetta ennþá - að ég geti skorað mörk og svona. Steini (Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari) verður bara að horfa á það,“ segir Berglind sem hefur ekki heyrt frá landsliðsþjálfaranum þegar um mánuður er í næsta verkefni.

„Ég hef ekkert heyrt frá honum ennþá,“ segir Berglind. En þú bíður við símann?

„Ég bíð við símann,“ segir Berglind og skellir upp úr.

Viðtalið má sjá í spilaranum.


Tengdar fréttir

„Vissi ekki hvernig ég ætti að haga mér“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk í glæsilegum sigri Breiðabliks á móti Þór/KA í Bestu-deild kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×