Play varð þriðja íslenska lágfargjaldaflugfélagið sem hverfur af sviðinu á rúmum áratug. Líkt og þegar forveri þess Wow air fór í þrot fyrir sex árum eru fórnarlömbin hundruð starfsmanna sem missa vinnuna og þúsundir farþega sem eru standaglópar eða sitja eftir með sárt ennið. Greint var frá því í gærmorgun að Play hefði hætt starfsemi. Fjögur hundruð manns misstu vinnuna og ferðaáætlanir þúsunda farþega væru í uppnámi. Þrátt fyrir að staða Play hefði lengi verið á milli tannanna á fólki kom tímasetningin aðeins á óvart. Félagið hafði nýlega lokið við að tryggja sér meira en tveggja milljarða króna innspýtingu. Innan við mánuður er þannig frá því að sérfræðingur sagði fréttastofu Sýnar að Play væri ekki á leiðinni í þrot. „Þegar félag er nýbúið að landa tveggja og hálfs milljarðs fjármögnun, hún er auðvitað á háum vöxtum og annað, en þá er félagið ekki á leiðinni í gjaldþrot, það liggur alveg fyrir. Þeir fjárfestar sem eru á bak við það myndu aldrei taka ákvörðun um að fara inn í slíkt. En flugrekstur er sveiflukenndur og hann er oft á tíðum erfiður,“ sagði sérfræðingur í kvöldfréttum 12. september. Þetta er í þriðja skipti sem íslenskt lágfargjaldaflugfélag líður undir lok frá 2012. Það ár tók Wow air yfir Iceland Express, fyrsta íslenska lágfargjaldaflugfélagið, sem hafði átt í kröggum. Play steig sjálft inn í tómarúmið sem skapaðist þegar Wow air fór í þrot í mars 2019. Hér á eftir verður stiklað á stóru í sögu Play sem heimsfaraldur, hröð útþensla og illdeilur við verkalýðshreyfinguna settu sterkan svip á. Úr WAB í Play Eftir að lágfargjaldaflugfélagið Wow air fékk válegan endi vorið 2019 komu fljótt fram hugmyndir um að stofna nýtt félag á rústum þess. Þegar í júlí það ár var sagt frá því að tveir fyrrverandi stjórnendur hjá Wow, þeir Arnar Már Magnússon og Sveinn Ingi Steinþórsson, ynnu að þessu í samfloti við írskan fjárfestingasjóð með tengsl við Ryanair. Vinnuheiti nýja félagsins var WAB sem stóð fyrir „We are back“ á ensku, „við erum komin aftur“. Babb kom fljótt í bátinn þar sem bandarískur flugrekandi keypti flugrekstrareignir úr þrotabúi Wow air þá um sumarið, þar á meðal vörumerki þess. Sveinn Ingi, sem áður var yfir hagdeild Wow air, sagði þær vendingar engin áhrif hafa á áform WAB. „Þú þarft ekki að kaupa eignir úr þrotabúi til þess að stofna flugfélag. Við erum bara að vinna eftir plani og áform þeirra hafa engin áhrif á áform okkar,“ sagði Sveinn Ingi í júlí 2019 við Nadine Guðrúnu Yaghi, þáverandi fréttamann Stöðvar 2 sem hóf sjálf störf fyrir Play tveimur árum síðar. Ekki fór það svo að nýja flugfélagið héti WAB því aðstandendur þess kynntu nýtt nafn á blaðamannafundi í Perlunni 5. nóvember 2019. Play skyldi félagið heita. Átti nafnið að skírskota til þess að fólk færi til útlanda til þess að leika sér en rauður einkennislitur félagsins að tákna íslenska náttúru. Á þessum tímapunkti stóð til að Play flygi til sex áfangastaða í Evrópu á tveimur leigðum Airbus-þotum. Nokkrum mánuðum seinni ættu fjórar þotur að bætast í hópinn og Ameríkuflug að hefjast. Mikill áhugi var á félaginu og sóttu um þúsund manns um störf hjá því, að sögn forsvarsmanna þess á þeim tíma. Strax upp á kant við verkalýðsfélög vegna kjaramála Ekkert varð þó úr því að Play hæfi sig á loft strax. Félagið átti erfitt með að tryggja sér nægilegt fjármagn til að hefja starfsemina og gat ekki greitt starfsmönnum sínum laun á réttum tíma fyrir nóvembermánuð. Þá seinkaði félagið sölu á fyrstu flugmiðunum. Þrátt fyrir það hófust deilur forsvarsmanna Play við verkalýðshreyfinguna sem áttu eftir að setja svip sinn á alla sögu flugfélagsins samstundis. Rekstrarlíkan Play virtist enda ganga út á að skera niður launakostnað út í ystu æsar. Drífa Snædal, þáverandi forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sagði kjaramál hjá Play brjóta í bága við allar grunnstoðir stéttarfélaga aðeins þremur dögum eftir kynningarfundinn í Perlunni. Ástæðan væri sú að búið væri að semja um kaup flugliða og flugmanna áður en félagið hefði ráðið nokkurn slíkan til sín. Starfsmenn hefðu því enga aðkomu að eigin samningum. Sakaði Drífa Play síðar um að stunda undirboð. Þá höfðu verið sagðar fréttir af því að stjórnendur Play legðu upp með mun minni launakostnað en hafði verið hjá Wow air. Talsmaður Play sagði starfsmannakjör félagsins „byggð upp með öðrum hætti en áður hefur tíðkast“. Deilurnar blossuðu aftur upp þegar nálgaðist að Play hæfi starfsemi árið 2021. ASÍ hvatti þá landsmenn til þess að sniðganga nýja flugfélagið vegna þess að það byði ekki kaup og kjör sem giltu á Íslandi. Forsvarsmenn Play brugðust ókvæða við því sem þeir kölluðu „annarlegan áróður“ og hótuðu ASÍ málsókn. Seinna viðurkenndi Birgir Jónsson, forstjóri, þó að það væri vandræðalegt fyrir Play að formaður stéttarfélags sem skrifaði undir kjarasamning við félagið hafi ekki viljað gefa upp hverjir stýrðu því eða hefðu tekið þátt í samningsgerðinni. ASÍ taldi félagið gervistéttarfélag sem hefði þann tilgang að gæta hagsmuna atvinnurekanda. Veiran skæða brá faraldsfæti fyrir Play Play náði ekki að hefja sig á loft áður en heimsfaraldur kórónuveiru hafði hamfarakennd áhrif á alþjóðasamgöngur árið 2020 og næstu misserin á eftir. Engu að síður sagði Skúli Skúlason, stjórnarformaður og aðaleigandi Play, að félagið væri í startholunum í maí 2020 en þá voru tveir mánuðir frá því að fyrsta samkomubann vegna faraldursins tók gildi á Íslandi. Arnar Már forstjóri sagði stefnt á að hefja ferðir þá um haustið. Þau bjartsýnu áform gengu ekki eftir og í millitíðinni fór Bogi Guðmundsson, einn fjögurra upphaflegra stofnenda Play, í mál og krafðist þess að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna þrjátíu milljóna króna sem hann taldi sig eiga inni í vangoldin laun. Birgir Jónsson tók við sem forstjóri Play í apríl 2021 og boðaði hann fljótlega að fyrsta ferð félagsins yrði farin til London þá um sumarið. Miðasala hófst í maí til Alicante, Barcelona, Berlínar, Kaupmannahafnar, Parísar, London og Tenerife. Jómfrúarflugið var svo farið til Stansted-flugvallar við London 24. júní árið 2021. Bætti félagið við fleiri áfangastöðum eftir því sem leið á árið og hóf undirbúning að Ameríkuflugi sem hófst árið 2022. Wow air hafði einnig lagt upp í slíka vegferð á sínum tíma en þurft að hrökklast af henni áður en félagið féll svo á endanum. Frásögn um margboðað gjaldþrot Arnar Már, einn stofnenda Play, hætti störfum sem framkvæmdastjóri í mars árið 2022 en tveimur mánuðum síðar var greint frá 1,4 milljarða króna tapi af rekstri félagsins á fyrsta ársfjórðungi. Birgir forstjóri boðaði að tengiflugskerfi til Bandaríkjanna ætti eftir að umbreyta rekstrinum þá um sumarið. Strax þá var byrjað að slúðra um að Play stæði á brauðfótum. Birgir blés á kjaftsögur um slíkt í október 2022. Play tapaði 6,5 milljörðum króna það ár og leitaði til fjárfesta sinna um milljarða innspýtingu. Aftur kvað Birgir niður sögusagnir um gjaldþrot í febrúar 2023. „Af hverju ættum við að fara í þrot?“ sagði Birgir þá en viðurkenndi að reksturinn hefði ekki verið dans á rósum vegna ferðabanna og olíukrísu. Play óx hratt, bætti við farþegum og jók tekjur sínar. Það skilaði hagnaði eftir skatta í fyrsta sinn á þriðja ársfjórðungi 2023, nokkuð sem norskur fluggreinandi lýsti sem „kraftaverki“. Birgir sagði flugfélagið orðið þjóðhagslega mikilvægt í apríl það ár. Í fyrra var enn mikið tap á rekstri Play og stefndu stjórnendur á að sækja milljarða króna í aukið hlutafé og að skrá sig á aðalmarkað Kauphallarinnar. Birgir var borubrattur í febrúar 2024 þrátt fyrir kvitti um að eigið fé Play væri lítið og félagið væri jafnvel rekið á fyrirfram greiddum farmiðum farþega og ferðaskrifstofa. „Það eru engin vanskil og það er engin röð af einhverjum kröfuhöfum hérna út um dyrnar. Þessi rekstur er í jafnvægi. Við erum nýtt fyrirtæki. Við erum í tapi en það helmingaðist á síðasta ári og við erum mjög bjartsýn á framtíðina,“ sagði forstjóri Play þá. Mánuði síðar var Birgir horfinn á braut og Einar Örn Ólafsson, þáverandi stjórnarformaður tók við af honum sem forstjóri. Arnar Már sneri skömmu seinna aftur, nú sem aðstoðarforstjóri en entist í innan við þrjá mánuði sem slíkur. Um vorið sagðist Play hafa safnað 4,6 milljörðum króna í aukið hlutafé. Byrjaðir að leita hófanna erlendis Mikið var rætt um að Play gæti fært starfsemi sína frá Íslandi í fyrra. Einar Örn, nýr forstjóri, talaði um möguleikann á að flytja til Spánar og notast við spænskar áhafnir til að fljúga til og frá Íslandi. Hann áréttaði síðan að Play væri ekki á förum frá landinu. Vaxandi undiralda virtist þá vera í rekstrinum. Hlutabréfaverð Play féll um fimmtung eftir að félagið dró afkomuspá sína fyrir árið til baka sumarið 2024. Einar Örn sagði stöðu félagsins engu að síður trausta þegar hann greindi frá rúmlega milljarðs tapi í árshlutauppgjöri í júlí í fyrra. Í ágúst var félagið tekið inn í aðalmarkað Kauphallarinnar. Lýsti forstjórinn því sem „þroskamerki“ fyrir fyrirtækið. Síðasta haust færðist starfsemi Play úr landi að hluta, þó ekki til Spánar eins og Einar Örn hafði velt vöngum yfir heldur til Möltu. Á sama tíma var tilkynnt að Play drægi saman seglin í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku. Hlutabréf voru í frjálsi falli í kjölfarið. Byrjuðu stjórnendur að leggja grunninn að enn einni hlutafjáraukningunni. Play tapaði níu milljörðum króna í fyrra þegar uppi var staðið. Hættu við að taka félagið yfir Erfiðleikar Play jukust á þessu ári. Félagið var athugunarmerkt af Kauphöllinni vegna ábendingar endurskoðenda um rekstrarhæfi þess eftir að tilkynnt var um að það ætlaði að leigja út þriðjung flugvéla sinna næstu þrjú árin í febrúar. Leigan fór fram í gegnum dótturfélagið Play Europe sem fékk flugrekstrarleyfi á Möltu í mars. Í apríl tilkynnti Play að það væri hætt við ferðir til fjögurra áfangastaða í Evrópu. Í sama mánuði var greint frá þriggja og hálfs milljarðs króna tapi á rekstri á fyrstu þremur mánuðum ársins. Einar Örn forstjóri og Elías Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar Play, tilkynntu í júní að þeir hefðu áhuga á að taka félagið yfir. Þeir ætluðu að afskrá félagið á Íslandi og skila inn flugrekstrarleyfi hér. Starfsemin yrði alfarin rekin á leyfinu á Möltu. Fulltrúi starfsmanna Play sagði þá í áfalli yfir tíðindunum. Aðeins mánuði síðar hættu tvímenningarnir við yfirtökuna. Einar Örn sagði að félagið yrði ekki tekið af markaði á Íslandi en haldið yrði áfram með áður tilkynntar breytingar á leiðarkerfi. Róðurinn þyngdist í júlí þegar Play sendi frá sér afkomuviðvörun fyrir annan ársfjórðung. Hrundi hlutabréfaverð aftur í kjölfarið og hafði aldrei verið lægra. Einar Örn sagði ferðum félagsins til London, Parísar og Berlínar sjálfhætt. Sagði skuldabréfaútboð sýna traust á framtíð Play Svo virtist sem að framtíð Play væri tryggð í bili eftir að að félagið tryggði sér 2,4 milljarða króna í gegnum skuldabréfaútboð í sumar. „Þetta styrkir ekki aðeins fjárhagsstöðu okkar heldur sýnir einnig áframhaldandi traust á stefnu og framtíð PLAY,“ sagði Einar Örn 7. ágúst og spáði hagnaði á næsta ári. Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna spáði endalokum Play í viðtali í byrjun mánaðar en þá hafði um fimmtíu manns verið sagt upp hjá félaginu undanfarin tvö mánaðamót. Því tóku stjórnendur Play ekki þegjandi. Sökuðu þeir formanninn um að hafa beina hagsmuni af því að ráðast á Play þar sem meirihluti félagsmanna hans starfaði fyrir keppinautinn Icelandair. „[...] hér er maður sem virðist nú vera svolítið vanstilltur að hrauna yfir samkeppnisaðila vinnuveitanda síns,“ sagði Einar Örn í viðtali á Bylgjunni 3. september. Einar Örn bar fyrir sig erfiðan rekstur yfir lengri tíma þegar hann var spurður út í endalokin í gær. Reynt hefði verið að snúa rekstrinum við en vafalaust hefði mátt ráðast í slíkar aðgerðir fyrr. „Þegar svo mjög óvægin umræða fer af stað á síðustu vikum og svo bætast við deilur við starfsfólk. Þetta verður til þess að það dregur töluvert mikið úr sölunni hjá okkur. Það eru alltaf einhverjir samverkandi þættir sem verða til þess að svona fer og þetta var síðan niðurstaðan, já, í morgun (í gær). Að það væri komið að þessum tímapunkti.“ Innviðaráðherra sagði eftir fall Play í gær að Samgöngustofa hefði ekki talið ástæðu til aðgerða vegna félagsins eftir að hún fékk upplýsingar um stöðu þess 2. september. Meðal annars hefði átt að auka hlutafé sem ætti að duga félaginu til áramóta. Eftir starfsmannafund þar sem flutningur Play til Möltu var ræddur 12. september sagði forstjórinn engar frekari breytingar standa fyrir dyrum umfram þær sem hefðu þegar verið kynntar. „Við höfum auðvitað ekki farið varhluta af því að fólk hefur gaman af því að tala um félagið. Staðan núna er þannig að við fórum í sumar í í bætingu á fjármagnsskipan félagsins, fengum tæpa þrjá milljarða greidda inn í sumar, sem auðvitað styrkti stöðu félagsins fram á veginn. Þannig að það er svona það helsta sem hægt er að segja um stöðu félagins.“ Rúmum tveimur vikum eftir þau orð var búið að ýta á stopp hjá Play. Play Gjaldþrot Play Fréttir af flugi Tímamót WOW Air Ferðaþjónusta Mest lesið Leik lokið hjá Play Viðskipti innlent Kalla ráðherra og forstjóra Samgöngustofu fyrir samgöngunefnd Viðskipti innlent „Skrifast ekki á okkur að það hafi farið eins og er farið“ Viðskipti innlent Hækkun flugfargjalda muni skila sér í meiri verðbólgu Viðskipti innlent Icelandair geti ekki svarað fyrir orðræðuna Viðskipti innlent Engin ást eftir milli flugmanna og stjórnenda Viðskipti innlent Play kvartaði undan Icelandair þremur vikum fyrir gjaldþrot Viðskipti innlent Norðlensk framleiðsla sem er að slá í gegn á Íslandi Samstarf Gjaldþrotaskiptabeiðni Play tekin fyrir í héraðsdómi Viðskipti innlent Atvinnuleysi 5,3 prósent í ágúst Viðskipti innlent
Greint var frá því í gærmorgun að Play hefði hætt starfsemi. Fjögur hundruð manns misstu vinnuna og ferðaáætlanir þúsunda farþega væru í uppnámi. Þrátt fyrir að staða Play hefði lengi verið á milli tannanna á fólki kom tímasetningin aðeins á óvart. Félagið hafði nýlega lokið við að tryggja sér meira en tveggja milljarða króna innspýtingu. Innan við mánuður er þannig frá því að sérfræðingur sagði fréttastofu Sýnar að Play væri ekki á leiðinni í þrot. „Þegar félag er nýbúið að landa tveggja og hálfs milljarðs fjármögnun, hún er auðvitað á háum vöxtum og annað, en þá er félagið ekki á leiðinni í gjaldþrot, það liggur alveg fyrir. Þeir fjárfestar sem eru á bak við það myndu aldrei taka ákvörðun um að fara inn í slíkt. En flugrekstur er sveiflukenndur og hann er oft á tíðum erfiður,“ sagði sérfræðingur í kvöldfréttum 12. september. Þetta er í þriðja skipti sem íslenskt lágfargjaldaflugfélag líður undir lok frá 2012. Það ár tók Wow air yfir Iceland Express, fyrsta íslenska lágfargjaldaflugfélagið, sem hafði átt í kröggum. Play steig sjálft inn í tómarúmið sem skapaðist þegar Wow air fór í þrot í mars 2019. Hér á eftir verður stiklað á stóru í sögu Play sem heimsfaraldur, hröð útþensla og illdeilur við verkalýðshreyfinguna settu sterkan svip á. Úr WAB í Play Eftir að lágfargjaldaflugfélagið Wow air fékk válegan endi vorið 2019 komu fljótt fram hugmyndir um að stofna nýtt félag á rústum þess. Þegar í júlí það ár var sagt frá því að tveir fyrrverandi stjórnendur hjá Wow, þeir Arnar Már Magnússon og Sveinn Ingi Steinþórsson, ynnu að þessu í samfloti við írskan fjárfestingasjóð með tengsl við Ryanair. Vinnuheiti nýja félagsins var WAB sem stóð fyrir „We are back“ á ensku, „við erum komin aftur“. Babb kom fljótt í bátinn þar sem bandarískur flugrekandi keypti flugrekstrareignir úr þrotabúi Wow air þá um sumarið, þar á meðal vörumerki þess. Sveinn Ingi, sem áður var yfir hagdeild Wow air, sagði þær vendingar engin áhrif hafa á áform WAB. „Þú þarft ekki að kaupa eignir úr þrotabúi til þess að stofna flugfélag. Við erum bara að vinna eftir plani og áform þeirra hafa engin áhrif á áform okkar,“ sagði Sveinn Ingi í júlí 2019 við Nadine Guðrúnu Yaghi, þáverandi fréttamann Stöðvar 2 sem hóf sjálf störf fyrir Play tveimur árum síðar. Ekki fór það svo að nýja flugfélagið héti WAB því aðstandendur þess kynntu nýtt nafn á blaðamannafundi í Perlunni 5. nóvember 2019. Play skyldi félagið heita. Átti nafnið að skírskota til þess að fólk færi til útlanda til þess að leika sér en rauður einkennislitur félagsins að tákna íslenska náttúru. Á þessum tímapunkti stóð til að Play flygi til sex áfangastaða í Evrópu á tveimur leigðum Airbus-þotum. Nokkrum mánuðum seinni ættu fjórar þotur að bætast í hópinn og Ameríkuflug að hefjast. Mikill áhugi var á félaginu og sóttu um þúsund manns um störf hjá því, að sögn forsvarsmanna þess á þeim tíma. Strax upp á kant við verkalýðsfélög vegna kjaramála Ekkert varð þó úr því að Play hæfi sig á loft strax. Félagið átti erfitt með að tryggja sér nægilegt fjármagn til að hefja starfsemina og gat ekki greitt starfsmönnum sínum laun á réttum tíma fyrir nóvembermánuð. Þá seinkaði félagið sölu á fyrstu flugmiðunum. Þrátt fyrir það hófust deilur forsvarsmanna Play við verkalýðshreyfinguna sem áttu eftir að setja svip sinn á alla sögu flugfélagsins samstundis. Rekstrarlíkan Play virtist enda ganga út á að skera niður launakostnað út í ystu æsar. Drífa Snædal, þáverandi forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sagði kjaramál hjá Play brjóta í bága við allar grunnstoðir stéttarfélaga aðeins þremur dögum eftir kynningarfundinn í Perlunni. Ástæðan væri sú að búið væri að semja um kaup flugliða og flugmanna áður en félagið hefði ráðið nokkurn slíkan til sín. Starfsmenn hefðu því enga aðkomu að eigin samningum. Sakaði Drífa Play síðar um að stunda undirboð. Þá höfðu verið sagðar fréttir af því að stjórnendur Play legðu upp með mun minni launakostnað en hafði verið hjá Wow air. Talsmaður Play sagði starfsmannakjör félagsins „byggð upp með öðrum hætti en áður hefur tíðkast“. Deilurnar blossuðu aftur upp þegar nálgaðist að Play hæfi starfsemi árið 2021. ASÍ hvatti þá landsmenn til þess að sniðganga nýja flugfélagið vegna þess að það byði ekki kaup og kjör sem giltu á Íslandi. Forsvarsmenn Play brugðust ókvæða við því sem þeir kölluðu „annarlegan áróður“ og hótuðu ASÍ málsókn. Seinna viðurkenndi Birgir Jónsson, forstjóri, þó að það væri vandræðalegt fyrir Play að formaður stéttarfélags sem skrifaði undir kjarasamning við félagið hafi ekki viljað gefa upp hverjir stýrðu því eða hefðu tekið þátt í samningsgerðinni. ASÍ taldi félagið gervistéttarfélag sem hefði þann tilgang að gæta hagsmuna atvinnurekanda. Veiran skæða brá faraldsfæti fyrir Play Play náði ekki að hefja sig á loft áður en heimsfaraldur kórónuveiru hafði hamfarakennd áhrif á alþjóðasamgöngur árið 2020 og næstu misserin á eftir. Engu að síður sagði Skúli Skúlason, stjórnarformaður og aðaleigandi Play, að félagið væri í startholunum í maí 2020 en þá voru tveir mánuðir frá því að fyrsta samkomubann vegna faraldursins tók gildi á Íslandi. Arnar Már forstjóri sagði stefnt á að hefja ferðir þá um haustið. Þau bjartsýnu áform gengu ekki eftir og í millitíðinni fór Bogi Guðmundsson, einn fjögurra upphaflegra stofnenda Play, í mál og krafðist þess að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna þrjátíu milljóna króna sem hann taldi sig eiga inni í vangoldin laun. Birgir Jónsson tók við sem forstjóri Play í apríl 2021 og boðaði hann fljótlega að fyrsta ferð félagsins yrði farin til London þá um sumarið. Miðasala hófst í maí til Alicante, Barcelona, Berlínar, Kaupmannahafnar, Parísar, London og Tenerife. Jómfrúarflugið var svo farið til Stansted-flugvallar við London 24. júní árið 2021. Bætti félagið við fleiri áfangastöðum eftir því sem leið á árið og hóf undirbúning að Ameríkuflugi sem hófst árið 2022. Wow air hafði einnig lagt upp í slíka vegferð á sínum tíma en þurft að hrökklast af henni áður en félagið féll svo á endanum. Frásögn um margboðað gjaldþrot Arnar Már, einn stofnenda Play, hætti störfum sem framkvæmdastjóri í mars árið 2022 en tveimur mánuðum síðar var greint frá 1,4 milljarða króna tapi af rekstri félagsins á fyrsta ársfjórðungi. Birgir forstjóri boðaði að tengiflugskerfi til Bandaríkjanna ætti eftir að umbreyta rekstrinum þá um sumarið. Strax þá var byrjað að slúðra um að Play stæði á brauðfótum. Birgir blés á kjaftsögur um slíkt í október 2022. Play tapaði 6,5 milljörðum króna það ár og leitaði til fjárfesta sinna um milljarða innspýtingu. Aftur kvað Birgir niður sögusagnir um gjaldþrot í febrúar 2023. „Af hverju ættum við að fara í þrot?“ sagði Birgir þá en viðurkenndi að reksturinn hefði ekki verið dans á rósum vegna ferðabanna og olíukrísu. Play óx hratt, bætti við farþegum og jók tekjur sínar. Það skilaði hagnaði eftir skatta í fyrsta sinn á þriðja ársfjórðungi 2023, nokkuð sem norskur fluggreinandi lýsti sem „kraftaverki“. Birgir sagði flugfélagið orðið þjóðhagslega mikilvægt í apríl það ár. Í fyrra var enn mikið tap á rekstri Play og stefndu stjórnendur á að sækja milljarða króna í aukið hlutafé og að skrá sig á aðalmarkað Kauphallarinnar. Birgir var borubrattur í febrúar 2024 þrátt fyrir kvitti um að eigið fé Play væri lítið og félagið væri jafnvel rekið á fyrirfram greiddum farmiðum farþega og ferðaskrifstofa. „Það eru engin vanskil og það er engin röð af einhverjum kröfuhöfum hérna út um dyrnar. Þessi rekstur er í jafnvægi. Við erum nýtt fyrirtæki. Við erum í tapi en það helmingaðist á síðasta ári og við erum mjög bjartsýn á framtíðina,“ sagði forstjóri Play þá. Mánuði síðar var Birgir horfinn á braut og Einar Örn Ólafsson, þáverandi stjórnarformaður tók við af honum sem forstjóri. Arnar Már sneri skömmu seinna aftur, nú sem aðstoðarforstjóri en entist í innan við þrjá mánuði sem slíkur. Um vorið sagðist Play hafa safnað 4,6 milljörðum króna í aukið hlutafé. Byrjaðir að leita hófanna erlendis Mikið var rætt um að Play gæti fært starfsemi sína frá Íslandi í fyrra. Einar Örn, nýr forstjóri, talaði um möguleikann á að flytja til Spánar og notast við spænskar áhafnir til að fljúga til og frá Íslandi. Hann áréttaði síðan að Play væri ekki á förum frá landinu. Vaxandi undiralda virtist þá vera í rekstrinum. Hlutabréfaverð Play féll um fimmtung eftir að félagið dró afkomuspá sína fyrir árið til baka sumarið 2024. Einar Örn sagði stöðu félagsins engu að síður trausta þegar hann greindi frá rúmlega milljarðs tapi í árshlutauppgjöri í júlí í fyrra. Í ágúst var félagið tekið inn í aðalmarkað Kauphallarinnar. Lýsti forstjórinn því sem „þroskamerki“ fyrir fyrirtækið. Síðasta haust færðist starfsemi Play úr landi að hluta, þó ekki til Spánar eins og Einar Örn hafði velt vöngum yfir heldur til Möltu. Á sama tíma var tilkynnt að Play drægi saman seglin í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku. Hlutabréf voru í frjálsi falli í kjölfarið. Byrjuðu stjórnendur að leggja grunninn að enn einni hlutafjáraukningunni. Play tapaði níu milljörðum króna í fyrra þegar uppi var staðið. Hættu við að taka félagið yfir Erfiðleikar Play jukust á þessu ári. Félagið var athugunarmerkt af Kauphöllinni vegna ábendingar endurskoðenda um rekstrarhæfi þess eftir að tilkynnt var um að það ætlaði að leigja út þriðjung flugvéla sinna næstu þrjú árin í febrúar. Leigan fór fram í gegnum dótturfélagið Play Europe sem fékk flugrekstrarleyfi á Möltu í mars. Í apríl tilkynnti Play að það væri hætt við ferðir til fjögurra áfangastaða í Evrópu. Í sama mánuði var greint frá þriggja og hálfs milljarðs króna tapi á rekstri á fyrstu þremur mánuðum ársins. Einar Örn forstjóri og Elías Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar Play, tilkynntu í júní að þeir hefðu áhuga á að taka félagið yfir. Þeir ætluðu að afskrá félagið á Íslandi og skila inn flugrekstrarleyfi hér. Starfsemin yrði alfarin rekin á leyfinu á Möltu. Fulltrúi starfsmanna Play sagði þá í áfalli yfir tíðindunum. Aðeins mánuði síðar hættu tvímenningarnir við yfirtökuna. Einar Örn sagði að félagið yrði ekki tekið af markaði á Íslandi en haldið yrði áfram með áður tilkynntar breytingar á leiðarkerfi. Róðurinn þyngdist í júlí þegar Play sendi frá sér afkomuviðvörun fyrir annan ársfjórðung. Hrundi hlutabréfaverð aftur í kjölfarið og hafði aldrei verið lægra. Einar Örn sagði ferðum félagsins til London, Parísar og Berlínar sjálfhætt. Sagði skuldabréfaútboð sýna traust á framtíð Play Svo virtist sem að framtíð Play væri tryggð í bili eftir að að félagið tryggði sér 2,4 milljarða króna í gegnum skuldabréfaútboð í sumar. „Þetta styrkir ekki aðeins fjárhagsstöðu okkar heldur sýnir einnig áframhaldandi traust á stefnu og framtíð PLAY,“ sagði Einar Örn 7. ágúst og spáði hagnaði á næsta ári. Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna spáði endalokum Play í viðtali í byrjun mánaðar en þá hafði um fimmtíu manns verið sagt upp hjá félaginu undanfarin tvö mánaðamót. Því tóku stjórnendur Play ekki þegjandi. Sökuðu þeir formanninn um að hafa beina hagsmuni af því að ráðast á Play þar sem meirihluti félagsmanna hans starfaði fyrir keppinautinn Icelandair. „[...] hér er maður sem virðist nú vera svolítið vanstilltur að hrauna yfir samkeppnisaðila vinnuveitanda síns,“ sagði Einar Örn í viðtali á Bylgjunni 3. september. Einar Örn bar fyrir sig erfiðan rekstur yfir lengri tíma þegar hann var spurður út í endalokin í gær. Reynt hefði verið að snúa rekstrinum við en vafalaust hefði mátt ráðast í slíkar aðgerðir fyrr. „Þegar svo mjög óvægin umræða fer af stað á síðustu vikum og svo bætast við deilur við starfsfólk. Þetta verður til þess að það dregur töluvert mikið úr sölunni hjá okkur. Það eru alltaf einhverjir samverkandi þættir sem verða til þess að svona fer og þetta var síðan niðurstaðan, já, í morgun (í gær). Að það væri komið að þessum tímapunkti.“ Innviðaráðherra sagði eftir fall Play í gær að Samgöngustofa hefði ekki talið ástæðu til aðgerða vegna félagsins eftir að hún fékk upplýsingar um stöðu þess 2. september. Meðal annars hefði átt að auka hlutafé sem ætti að duga félaginu til áramóta. Eftir starfsmannafund þar sem flutningur Play til Möltu var ræddur 12. september sagði forstjórinn engar frekari breytingar standa fyrir dyrum umfram þær sem hefðu þegar verið kynntar. „Við höfum auðvitað ekki farið varhluta af því að fólk hefur gaman af því að tala um félagið. Staðan núna er þannig að við fórum í sumar í í bætingu á fjármagnsskipan félagsins, fengum tæpa þrjá milljarða greidda inn í sumar, sem auðvitað styrkti stöðu félagsins fram á veginn. Þannig að það er svona það helsta sem hægt er að segja um stöðu félagins.“ Rúmum tveimur vikum eftir þau orð var búið að ýta á stopp hjá Play.