Sport

Lamar Jackson ekki með um helgina

Árni Jóhannsson skrifar
Lamar Jackson með boltann en Matt Milano bíður spenntur.
Lamar Jackson með boltann en Matt Milano bíður spenntur. Bryan Bennett/Getty Images

Baltimore Ravens verða án leikstjórnenda síns Lamar Jackson á morgun þegar liðið mætir Houston Texans í NFL deildinni á sunnudag. Það eru slæm tíðindi fyrir Baltimore sem hafa ekki byrjað vel í deildinni í vetur.

Jackson þurfti að fara af velli þegar Ravens tapaði fyrir Kansas City Chiefs um síðustu helgi. Jackson tognaði aftan í læri og þurfti að fara af velli í seinni hálfleik. Jackson er mjög mikilvægur fyrir liðið frá Baltimore en af síðustu 11 leikjum sem hann hefur misst af þá hefur liðið tapað níu leikjum. 

Það þýðir að Cooper Rush mun taka við keflinu af Jackson sem tvisvar hefur verið valinn mikilvægasti maður deildarinnar. Rush er ekki óvanur því að taka við af stjörnuleikstjórnanda en hann var á mála Dallas Cowboys á síðustu leiktíð og kom inn í liðið í átta leikjum þegar Dak Prescott þurfti að missa af leikjum liðsins.

Baltimore Ravens hefur tapað þremur leikjum af fjórum og þar á bæ þykir það ekki nógu gott og langt fyrir neðan væntingar.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×