Innlent

Hópslysaáætlun virkjuð á Snæ­fells­nesi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Slysið varð í Seljafirði.
Slysið varð í Seljafirði. Grafík/Sara

42 erlendir ferðamenn voru um borð í rútu á Snæfellsnesi er hún valt af veginum. Bæði hópslysaáætlun og samhæfingarmiðstöð Almannavarna voru virkjaðar vegna slyssins en miðað við upplýsingar sem liggja fyrir er talið að betur fór en á horfðist. Tveir voru fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.

Slysið varð í Seljafirði, á norðanverðu Snæfellsnesi, um hálf sex síðdegis í dag og staðfesti Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, að hópslysaáætlun hefði verið virkjuð en þá eru lögregla, slökkvilið, sjúkralið, Landhelgisgæslan og björgunarsveitir kölluð út. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, greindi frá að samhæfingarmiðstöð Almannavarna hefði verið virkjuð.

Ásmundur Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, staðfestir í samtali við fréttastofu að um erlenda ferðamenn hafi verið að ræða auk fararstjóra og bílstjóra. Hann staðfestir einnig að rútan valt út af veginum og endaði á hvolfi.

Hann segir að enginn sé talinn alvarlega slasaður en átta voru fluttir á sjúkrahúsið á Akranesi. Þá voru aðrir farþegar fluttir í fjöldahjálparstöð sem var opnuð í Grundarfirði vegna slyssins. Allir voru með meðvitund.

Guðmundur Birkir, aðgerðarstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að ferðamennirnir tveir voru fluttir á Landspítalann í Fossvogi sem lenti þar rétt fyrir klukkan hálf átta. Hann bendir á að í hópslysaáætluninni er hlutverk Landhelgisgæslunnar bæði að senda þyrluna og einnig varðskip ef það er nálægt slysstað.

„Svo vildi til að Þór er þarna í Breiðafirðinum og er að detta inn á Grundarfjörð. Það er hluti af þessu viðbragði,“ segir Guðmundur Birkir.

Ásmundur segir að rannsóknarlögreglumaður lögregluembættisins á Vesturlandi sé á vettvangi. Slysið verði til rannsóknar hjá þeim auk rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×