Sport

McGregor í langt bann en gæti keppt í Hvíta húsinu

Sindri Sverrisson skrifar
Hinn 37 ára gamli Conor McGregor verður í banni fram í mars á næsta ári.
Hinn 37 ára gamli Conor McGregor verður í banni fram í mars á næsta ári. Getty/Leonardo Fernandez

MMA bardagakappinn Conor McGregor hefur verið dæmdur í átján mánaða bann frá keppni í UFC vegna brota á reglum um lyfjaeftirlit. Hann mun þó geta byrjað að keppa aftur á næsta ári, vel tímanlega fyrir bardagakvöldið á afmæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta fái hann að keppa þar.

McGregor, sem hefur ekki keppt síðan að hann fótbrotnaði í bardaga gegn Dustin Poirier sumarið 2021, var í þrígang boðaður í lyfjapróf á síðasta ári en skrópaði í öll skiptin.

CSAD, sem sinnir lyfjaeftirliti í bardagaíþróttum, segir að til hafi staðið að taka Írann í lyfjapróf 13. júní, 19. september og 20. september en það hafi aldrei tekist. Samkvæmt reglum UFC-bardagasamtakanna eiga íþróttamenn að upplýsa hvar þeir eru staddir hverju sinni, svo hægt sé að fá frá þeim lífsýni án viðvörunar.

CSAD segir þó að bann McGregors hafi verið stytt úr 24 mánuðum í 18 vegna þess hve samstarfsfús hann var og í ljósi meiðslastöðu hans.

Bannið tók gildi 20. september í fyrra, eftir síðasta skiptið þar sem það mistókst að fá McGregor í lyfjapróf, og því rennur það út 20. mars á næsta ári.

McGregor hefur haldið því fram að hann muni berjast á UFC-kvöldinu í Hvíta húsinu, sem nú hefur verið ákveðið að verði haldið 14. júní á næsta ári, á áttræðisafmæli Donalds Trump. Dana White, forseti UFC, segir ljóst að McGregor hafi mikinn áhuga á því en að ekkert sé frágengið hvað það varðar.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×