Framúrskarandi fyrirtæki

Heiður að vera kominn aftur á lista yfir Framúr­skarandi fyrir­tæki

Starri Freyr Jónsson skrifar
Náttúran á Reykjanesi getur verið töfrandi. Hér virða göngugarpar fyrir sér Sogin sem er litfagurt háhitasvæði sunnan við Trölladyngju og Grænudyngju á miðjum Reykjanesskaganum.
Náttúran á Reykjanesi getur verið töfrandi. Hér virða göngugarpar fyrir sér Sogin sem er litfagurt háhitasvæði sunnan við Trölladyngju og Grænudyngju á miðjum Reykjanesskaganum. Mynd/Þráinn Kolbeinsson.

Átta fyrirtæki á Reykjanesi sem tengjast ferðaþjónustu með beinum eða óbeinum hætti prýða lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki ársins 2025. Það eru Hótel Keilir, Happy Campers, BLUE Car Rental, Hótel Keflavík, Kiwi veitingar (Soho), PL Veitingar (Olsen Olsen), Konvin hótel og Camper Iceland.

„Það hefur verið stöðug fjölgun ferðamanna inn á Reykjanes á síðustu árum. Miðað við þær tölur sem eru komnar inn fyrir árið 2025, þá eru um 67% erlendra ferðamanna sem koma til landsins að heimsækja Reykjanesið,“ segir Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness.

Við slógum á þráðinn til forsvarsmanna nokkurra þessara fyrirtækja og heyrðum í þeim hljóðið af því tilefni.

Hótel Keilir er staðsett við Hafnargötu í Reykjanesbæ og opnaði árið 2007 en það er aftur á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki eftir þriggja ára fjarveru. „Það er mikill heiður og ánægjulegt að vera komin aftur á listann. Við erum afar þakklát starfsfólkinu okkar og viðskiptavinum. Þetta staðfestir að við erum á réttri leið og veitir okkur hvatningu til að halda áfram á þeirri braut,“ segir Bryndís Þorsteinsdóttir eigandi.

Uppgangur ferðaþjónustunnar á Reykjanesi hefur styrkt rekstur hótelsins og eflt vörumerkið að hennar sögn. „Við eflumst með hverju árinu og verðum þekktara vörumerki sem fólk treystir á. Það gefur okkur mikið að finna traustið frá okkar frábæru viðskiptavinum.“

Hún segir Reykjanesið hafa sterkt aðdráttarafl fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn. „Með áherslu á gæði, fjölbreytta afþreyingu og persónulega upplifun gesta sjáum við mikla möguleika til vaxtar. Við óskum þess að gestir komi til með að dvelja lengur á svæðinu og njóta alls þess sem það hefur upp á að bjóða.“

Krýsuvíkurberg eru 40 metra háir og 15 km breiðir sjávarklettar með fjölskrúðugu fuglalífi í um 22 km. fjarlægð austur af Grindavík.Mynd/Markaðsstofa Reykjaness.

Camper Iceland er á listanum annað árið í röð. Ólafur Þórisson framkvæmdastjóri var ánægður með árangurinn þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans þar sem hann var á fullu í haustverkunum með sínu fólki að ganga frá flotanum fyrir veturinn. „Fyrirtækið hefur í raun fengið betra og jákvæðara viðmót eftir þessar viðurkenningar, þrátt fyrir að hafa verið í rekstri mjög lengi en rætur fyrirtækisins má rekja allt aftur til ársins 1987 þegar Jón Kjartansson og Regula Brem byrjuðu að selja ferðir frá Sviss til Íslands.“

Hann segir rekstur fyrirtækisins haldast í hendur við velgengni ferðaþjónustunnar, fleiri ferðamenn gefi af sér fleiri fyrirspurnir. „Við höfum þó verið það heppin í gegnum tíðina að vera oftar en ekki uppseld yfir háannatímann. Markmið okkar síðustu ár hefur verið að leita leiða til að fylla á jaðrana, þ.e. tímann utan háannatímans.“

Hann er bjartsýnn á vöxt ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum og segir greinina alltaf verða viðloðandi við Suðurnes vegna staðsetningar flugvallarins. „Sem húsbílaleiga einblínum við hins vegar ekki á eitt svæði, við erum að útvega fólki leið til að sjá fleiri staði, án þess að vera bundin fyrir fram ákveðinnar ferðaáætlunar.“

Karlinn er um 50-60 metra hár klettur sem stendur tignarlegur í hafinu úti fyrir Valahnúk, skammt frá Reykjanesvita. Mynd/Markaðsstofa Reykjaness.

Kiwi veitingar ehf. var stofnað árið 2005 af hjónunum Erni Garðarssyni og Írisi Björk Guðjónsdóttur. Upphaflega ráku þau veitingastaðinn Soho við Hafnargötu í Keflavík en frá árinu 2008 hafa þau einbeitt sér alfarið að rekstri veisluþjónustu.

„Rekstrarstaðan er búin að vera góð undanfarin fimm ár og mér finnst að við hefðum átt að vera fyrir löngu komin á þennan umtalaða lista,“ segir Örn Garðarsson.

Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur haft jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins en þó með óbeinum hætti. „Við erum ekki að selja mat dags daglega til erlendra ferðamann en þjónustum stóran hluta þess starfsfólks sem er í framlínunni ferðaþjónustunnar, t.d. starfsfólk bílaleiga, starfsfólk flugstöðvarinnar og fleiri hópa.“

Hann segir ákveðnar blikur á lofti í ferðaþjónustunni. Græðgin sé of mikið ríkjandi sem fæli ferðamann frá landinu. Gengið sé einnig óhagstætt, vegir óöruggir og þjónustulund oft ábótavant.

„Það er einnig búið að gera ferðaþjónustunni erfitt um vik vegna skattlagningar, aukins launa- og hráefniskostnaður og reglugerðir kringum leyfisveitingar eru of flóknar. En með samstilltu átaki á Reykjanesið mikið inni. En til þess að það verði að veruleika þarf að auka mjög grunnþjónustu við ferðamenn. Þar má t.d. nefna tjald- og húsbílastæði og aðstöðu fyrir eldun og þrif á fatnaði og líkama án þessa að það kosti allt of mikið.“

Keilir er eitt helsta kennileiti Reykjanessaga. Þótt fjallið sé ekki hátt er útsynið frábært af toppnum.Mynd/Þráinn Kolbeinsson.

Konvin Hótel er staðsett á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hótelið opnaði árið 2017 og býður í dag upp á 137 herbergi, veitingastað og bar.

Konvin hótel er nú annað árið í röð á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki. „Það fyllir okkur stolti að vera á meðal þeirra fyrirtækja sem Creditinfo útnefnir sem Framúrskarandi,“ segir Heiðar Heiðarsson, annar eigenda Konvin Hótels. „Fyrir okkur er þetta ekki bara viðurkenning á góðum rekstri heldur einnig viðurkenning á því að sú frábæra vinna og stefnumótun sem starfsfólk, stjórn og hluthafar sinna á hverjum degi fyrir félagið sé að skila árangri sem við getum öll verið stolt af.“

Þrátt fyrir mikinn vöxt ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum síðustu ár hefur árangur hótelsins þó ekki komið að sjálfu sér bætir Heiðar við. „Við höfum tekið stór skref, fjárfest verulega og lagt metnað í að byggja upp þjónustu sem við getum verið stolt af, bæði fyrir viðskiptavini okkar og samfélagið í kringum okkur. Þeir sem sækja okkur heim sjá það fljótt að við höfum áframhaldandi miklar væntingar til framtíðar enda erum við enn að fjárfesta í og byggja upp hótelið okkar og fasteignasafn.“

Og hann er bjartsýnn á framtíð ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. „Við lítum björtum augum til framtíðar og ætlum áfram að leggja okkar af mörkum til að skapa hágæða ferðaþjónustu sem skilar sér í bættu samfélagi – fyrir bæði ferðamenn og Íslendinga.“

Nýtt gosskeið hefur sett sinn svip á náttúruna á Reykjanesi.Mynd/Markaðsstofa Reykjaness.

Bein útsending verður á Vísi frá verðlaunaviðburði Creditinfo sem fram fer 30. október.

Umfjöllun um Framúrskarandi fyrirtæki er unnin í samstarfi við Creditinfo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×