Fótbolti

Allir fæddir í Hollandi en gætu tekið metið af Ís­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leandro Bacuna, Shannon Carmelia og Juninho Bacuna eru leikmenn Curacao og fagna hér góðum úrslitum í undankeppni HM.
Leandro Bacuna, Shannon Carmelia og Juninho Bacuna eru leikmenn Curacao og fagna hér góðum úrslitum í undankeppni HM. Getty/GERRIT VAN COLOGNE

Ísland er enn fámennasta þjóðin til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta. Grænhöfðaeyjar tryggðu sér HM-sætið í vikunni en þær eru fjölmennari en Ísland. Það er önnur eyjaþjóð sem ógnar hins vegar íslenska heimsmetinu.

Hér erum við að tala um landslið Curacao. Landslið eyjunnar á enn möguleika en liðið er í harðri baráttu við Jamaíku í sínum riðli í undankeppni Norður- og Mið-Ameríku.

Curacao vann 2-0 sigur á Jamaíku í síðasta glugga en gerði svo jafntefli við Trínidad.

Eins og staðan er núna þá er Jamaíka með einu stigi meira en Curacao. Liðin eiga síðan eftir að mætast í úrslitaleik á Jamaíku. Efsta liðið tryggir sig inn á heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

Lokaleikurinn í riðlinum verður á milli Jamaíka og Curacao í nóvember en hann fer fram í Kingston í Jamaíku.

Curacao er eyríki í Karíbahafi, um 65 km undan strönd Venesúela. Það er rétt við Suður-Ameríku.

Íslendingar voru rúmlega 350 þúsund þegar íslenska karlalandsliðið tryggði sig inn á HM í Rússlandi fyrir næstum því átta árum. Það búa hins vegar aðeins 185 þúsund manns á Curacao.

Það er því ljóst að Ísland missir metið takist Curacao að klára dæmið. Liðið var komið upp í efsta sætið eftir sigurinn á Jamaíku en Jamaíkumenn náðu því aftur þegar Curacao náði aðeins í eitt stig á móti Trínidad.

Það vekur þó vissulega athygli að þótt leikmennirnir spili fyrir landslið Curacao þá er enginn leikmaður í síðasta 24 manna landsliðshópi Curacao fæddur á eyjunni. Allir leikmennirnir fæddust í Hollandi og langflestir eru að spila með evrópskum félagsliðum.

Curacao var hluti af Hollensku Vestur-Indíum en fékk sjálfstjórn árið 2010 innan Konungsríkisins Hollands þegar stjórnsýslueiningin Hollensku Antillaeyjar var leyst upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×