Viðskipti erlent

Snapchat og Duolingo í basli vegna bilunar hjá Amazon

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Notendur Snapchat hafa lent í basli með að nota miðilinn í morgun.
Notendur Snapchat hafa lent í basli með að nota miðilinn í morgun. Getty

Snapchat, Duolingo og Roblox eru á meðal fjölda vefsíða, forrita og tölvuleikja sem liggja niðri vegna bilunar hjá vefhýsingaraðilanum Amazon. Þá eru dæmi um að bankar séu í basli vegna bilunarinnar.

BBC er meðal miðla sem greinir frá biluninni sem nær til notenda um allan heim.

Í tilkynningu frá Amazon segir að staðan sé að snúast og svo virðist sem starfsmenn fyrirtækisins hafi lagað bilunina. Enn gætu notendur þó orðið varir við hægagang.

Bilunin gerði fyrst vart við sig á sjöunda tímanum í morgun. Um tveimur tímum síðar sögðust starfsmenn Amazon hafa komist á snoðir um hvert vandamálið væri og að viðgerð væri hafin. Um hálftíma eftir það sögðu þeir útlit fyrir að búið væri að laga vandamálið.

Bilunin mun hafa komið upp í kerfi Amazon sem kallast DynamoDB system en það er notað til að útvega vefsvæðum geymslu og reiknigetu.

Að neðan má sjá lista yfir forrit sem urðu fyrir áhrifum vegna bilunarinnar. Hann er ekki tæmandi en stærstu stofnanir og fyrirtæki heims eru meðal viðskiptavina Amazon:

  • Snapchat
  • Facebook
  • ChatGPT
  • Zoom
  • Roblox
  • Clash Royale
  • My Fitness Pal
  • Life360
  • Clash of Clans
  • Fortnite
  • Canva
  • Wordle
  • Signal
  • Coinbase
  • Duolingo
  • Slack
  • Smartsheet
  • PokemonGo
  • Epic Games
  • PlayStation Network
  • Peloton

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×