Innlent

Fundi frestað þar til á morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samninganefnd flugumferðarstjóra kemur sér fyrir í morgun á meðan fjölmiðlafólk fylgist með.
Samninganefnd flugumferðarstjóra kemur sér fyrir í morgun á meðan fjölmiðlafólk fylgist með. Vísir/Anton Brink

Fundi deiluaðila í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins hefur verið frestað til klukkan ellefu á morgun. Ríkissáttasemjari frestaði fundi nú klukkan sex í kvöld.

Fundur hófst í húsakynnum ríkissáttasemjara að Borgartúni klukkan tíu í morgun. Fundurinn var boðaður í gærkvöldi, eftir að fulltrúar flugumferðarstjóra komu með hugmynd inn í viðræðurnar sem talið var að flötur væri fyrir að ræða áfram.

Á sama tíma var ákveðið að fresta vinnustöðvun sem annars hefði verið ráðist í síðustu nótt. Hún hefði haft áhrif á alþjóðlegt flugstjórnarsvæði yfir og við Grænland sem stýrt er frá Íslandi.

Þrjár aðrar vinnustöðvanir eru á dagskrá hjá flugumferðarstjórum. Sú næsta mun að óbreyttu hefjast í flugturni Keflavíkurflugvallar klukkan tvö á fimmtudag, og standa yfir í fimm klukkustundir. Þá verður engin umferð heimil í flugstjórnarsviði vallarins, né heldur á akbrautum og flugbrautum verður lokað meðan á vinnustöðvunum stendur.

Daginn eftir stendur til að leggja niður störf með sambærilegum hætti á Reykjavíkurflugvelli. Á laugardag yrði horft til aðflugssvæða Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvalla. Þá verður engin umferð heimil í aðflugssvæðinu.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari staðfestir í samtali við fréttastofu að fundi hafi verið frestað um klukkan sex í kvöld. Deiluaðilar hittast aftur klukkan ellefu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×