Neytendur

Endur­greiða við­skipta­vinum sem mæta í skimun mánaðariðgjald

Lovísa Arnardóttir skrifar
Fríða Ásgeirsdóttir, Birkir Jóhannsson, forstjóri TM, og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Fríða Ásgeirsdóttir, Birkir Jóhannsson, forstjóri TM, og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. Anton Bjarni

TM mun endur­greiða við­skipta­vinum sínum einn mánuð í ið­gjald sjúk­dóma­trygginga fari þeir í brjósta­skimun. Um er að ræða nýtt átak sem unnið er í sam­starfi við Krabba­meins­félagið í þeim til­gangi að hvetja konur til að fara í skimun. 61 pró­sent kvenna á Ís­landi mætti í brjósta­skimun í fyrra.

Þá hafði þeim fjölgað um níu prósent frá því árinu áður en náðu þó ekki landsmarkmiði sem er 75 prósent. Árlega greinast um 260 konur með brjóstakrabbamein en það er algengasta krabbameinið meðal kvenna á Íslandi.

Í tilkynningu segir að mæting kvenna sé mismikil eftir landshlutum, aldri og uppruna og að samstarfinu sé ætlað að minnka þann mun. Til þess muni þau beita fjölbreyttum leiðum. Þá segir að TM og Krabbameinsfélagið muni jafnframt vinna saman að endurskoðun á skilmálum sjúkdómatrygginga til að tryggja að þau taki mið af þörfum þeirra sem greinast með krabbamein.

Til að styðja við markmið átaksins mun TM endurgreiða einn mánuð af iðgjaldi sjúkdómatryggingar hjá viðskiptavinum sínum sem nýta boð í brjóstaskimun. Endurgreiðslan er á bilinu fimm til tíu þúsund krónur eftir því hvað fólk er með háa sjúkdómatryggingu og þar með iðgjald. Fram kemur í tilkynningu að nóg sé að senda kvittun um skimun á TM til að fá endurgreitt. Nánar hér.

„Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein meðal kvenna hérlendis og sjáum við það greinilega í okkar tölum varðandi sjúkdómatryggingar. Það er sláandi hversu lágt hlutfall kvenna nýtir boð í skimun, sérstaklega þegar við berum okkur saman við tölur frá hinum Norðurlöndunum. Við hvetjum allar konur til að mæta þegar þær fá boð og vonum að þessi aðgerð skapi enn meiri hvata fyrir okkar viðskiptavini til þess. Við getum hækkað hlutfallið saman og þannig lækkað dánartíðni vegna brjóstakrabbameins,“ er haft eftir Birki Jóhannssyni, forstjóra TM, í tilkynningu.

„Það er ánægjulegt að TM taki virkan þátt í að styðja við þetta forvarnarstarf og hvetji konur um allt land til að mæta í skimun, það getur raunverulega bjargað mannslífum,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Konur á aldrinum 40 til 74 sem hafa fengið boðsbréf í skimun fyrir brjóstakrabbameini geta pantað tíma hjá Brjóstamiðstöð Landspítala í síma 543-9560 milli kl. 9:30 og 15:30 alla virka daga. Brjóstamyndatakan fer fram á Brjóstamiðstöð, Eiríksgötu 5 í Reykjavík og á Sjúkrahúsinu á Akureyri, Eyrarlandsvegi. Einnig er hægt að panta á vef Brjóstamiðstöðvarinnar eða senda fyrirspurn á netfangið brjostaskimun@landspitali.is.

Brjóstaskimun er framundan á landsbyggð:

Eskifjörður 20. - 24. október

Hvolsvöllur 27. - 28. október

Selfoss 3. - 14. nóvember

Reykjanesbær 24. - 28. nóvember






Fleiri fréttir

Sjá meira


×